Minna aðhald en engin vá fyrir dyrum

Gunnar Haraldsson.
Gunnar Haraldsson. Skjáskot/Alþingi

Vegna betra árferðis er afkoma fjármála hins opinbera betri en á sama tíma í fyrra sem aftur virðist hafa leitt til slökunar í aðhaldi í þeim efnum. Þetta sagði Gunnar Haraldsson, formaður fjármálaráðs, meðal annars á fundi fjárlaganefndar Alþingis á opnum fundi nefndarinnar í morgun þar sem rætt var um fjármálaáætlun 2019-2023.

Gunnar og aðrir fulltrúar í fjármálaráði gerðu þar grein fyrir álitsgerð ráðsins um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Gunnar sagði ennfremur að sveigjanleiki í fjármálum hins opinbera, sem verið hafi til staðar á síðasta ári, virtist nú vera að mestu horfinn. Útgjöld hafi almennt verið aukin á sama tíma og tekjuhliðin hafi verið veikt í fjármálaáætluninni. 

Ennfremur sagði hann að nær út allt áætlunartímabilið mætti gera ráð fyrir að afkoma hins opinbera „væri í gólfum þeim sem að boðuð eru í fjármálastefnu og það liggur þá í hlutarins eðli að það má lítið út af bera til að þær áætlanir gangi ekki eftir.“ Í svari við fyrirspurn í þessum efnum sagði Gunnar óumdeilt að mati nefndarinnar að aðhaldsstigið hefði minnkað.

Hins vegar sagðist hann vilja árétta að það þýddi ekki að það væri endilega einhver hætta á ferðum. Að minnsta kosti ekki í þeim skilningi að einhver vá væri fyrir dyrum. Einfaldlega væri verið að tala um það að liggja þyrfti fyrir til hvaða ráða væri gripið til þess að bregðast við minni sveigjanleika. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert