Óvelkominn en lét ekki segjast

mbl.is/Júlíus

Lögreglan handtók ungan mann í annarlegu ástandi í gærkvöldi fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.  Maðurinn var að að reyna að komast inn í hús þar sem hann var óvelkominn og hafði lögregla ítrekað vísað honum frá húsinu en hann kom alltaf aftur. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans lagast.

Bifreið var ekið á kantstein á mótum Sæbrautar og Laugarnesvegar skömmu eftir miðnætti í nótt. Engin meiðsl urðu á fólki en flytja þurfti bifreiðina af vettvangi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í gærkvöldi í Kópavogi grunaður um eignaspjöll.  Tilkynnt hafði verið um manninn með hamar að brjóta rúðu í bifreið. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan stöðvaði bifreið á Sævarhöfða á áttunda tímanum í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda, þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi, og vörslu fíkniefna.

Um hálfníu voru höfð afskipti af ungum ökumanni við Dverghöfða. Ökumaðurinn reyndist vera réttindalaus og bifreiðin ótryggð. Lögreglan klippti því skráningarnúmer bifreiðarinnar af.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur bifreiða undir áhrifum áfengis og fíkniefna í gærkvöldi og nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert