Svaðilför Grímkels

Tilkynnt var til Neyðarlínunnar um kött í sjálfheldu á eyju í Tjörninni á tíunda tímanum í gærkvöldi og tekið fram að kötturinn vældi mikið. Upphófst þá mikil aðgerð við að bjarga kettinum Grímkeli úr vandanum.

Samkvæmt dagbók lögreglu reyndist Grímkell fastur á lítilli eyju í syðstu tjörninni í Hljómskálagarðinum. Lögreglumaður óð út í tjörnina til þess að reyna að bjarga Grímkeli en festi sig í mikilli drullu og varð að snúa til baka. Kallað var á slökkvilið þar sem ógerlegt var fyrir lögreglumenn að ná til Grímkels.

Fjórir slökkviliðsmenn komu og fór einn út í Tjörnina í vöðlum en festi sig líkt og lögreglumaðurinn. Settur var stigi yfir á eyjuna til þess að slökkviliðsmaðurinn gæti komist að kettinum en þá var næstum í óefni komið því þegar slökkviliðsmaðurinn komst að kettinum festist hann í drullu. Slökkviliðsmaðurinn náði að lokum að losa sig og koma kettinum heilum á húfi úr eyjunni.

Að sögn lögreglu var Grímkell mjög blíður en vældi mikið. Sá sem óskaði eftir aðstoð við að bjarga Grímkeli úr háskanum ætlaði að fara með Grímkel heim og skila honum til eiganda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert