Villti á sér heimildir á vettvangi

Konan var óstöðug og reikul í framburði sínum hjá lögreglu …
Konan var óstöðug og reikul í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur þyngt dóm Héraðsdóms Norðurlands vestra yfir konu sem var sakfelld fyrir rangar sakargiftir en sýknuð af ákæru um brot gegn umferðarlögum eftir umferðarslys sem varð skammt frá Laugarbakka í Miðfirði árið 2016.

Konan var í héraði dæmd fyrir rangar sakargiftir með því að hafa á vettvangi umferðaróhappsins villt á sér heimildir með því að framvísa ökuskírteini annarrar konu og að hafa við skýrslutöku hjá lögreglu játað að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis og fíkniefna og undirritað skjalfestan framburð þess efnis, allt undir nafni hinnar konunnar.

Konan sem ók bifreiðinni var dæmd í tveggja mánaða fangelsi í héraðsdómi en Landsréttur þyngdi dóminn í fjóra mánuði.

Landsréttur dæmdi konuna einnig til sviptingar ökuréttar ævilangt.

Í dómi Landsréttar kemur fram að konan hefði verið óstöðug og reikul í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi um það hver hefði ekið bifreiðinni umrætt skipti og þá væri ótrúverðug frásögn hennar af því að hún hefði skipt um sæti við farþega bifreiðarinnar eftir að henni var ekið aftan á aðra bifreið.

Yrði af þeim sökum ekki á framburði hennar byggt um þetta atriði.

Þá játaði konan fyrir Landsrétti að hafa ekið bifreiðinni úr Öxnadal áleiðis til Reykjavíkur.

Hún var því sakfelld fyrir þau umferðarlagabrot sem henni voru gefin að sök í ákæru en í héraðsdómi hafði hún verið sýknuð af ákæru um brot gegn umferðarlögum með því að hafa ekið bifreið svipt ökurétti og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna.

Konan hefur áður hlotið fjölda dóma fyrir akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna auk aksturs án ökuréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert