Maður í haldi lögreglu vegna brunans

Frá aðgerðunum í kvöld.
Frá aðgerðunum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið einn mann í tengslum við eld sem kviknaði í kjallaríbúð húss við Óðinsgötu á tíunda tímanum í kvöld. Verið er að rannsaka hvort um íkveikju sé að ræða. 

Tilkynning um eldinn barst Slökkviliði höfuðborgarsvæðinsins kl. 21:20 í kvöld og fór allt tiltækt lið á vettvang. Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem logaði í sófa og öðrum húsmunum í íbúð í kjallara hússins. Enginn bjó í húsinu og það var mannlaust þegar eldurinn kviknaði, en reykkafarar fóru inn í húsið og leituðu þeir af sér grun á öllum fjórum hæðum þess. 

Ljósmynd/Sesselja María Mortensen

Það er hins vegar talið að hústökufólk hafi tekið sér bólfestu í kjallara hússins. Að öðru leyti hefur húsið verið mannlaust en einhverjar framkvæmdir hafa staðið yfir inni í því að undanförnu.

Aðgerðum slökkviliðsins lauk um kl. 22:30 en þá tók lögreglan við rannsókn brunavettvangsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert