„Algjörlega á ábyrgð eigendanna“

Frá Óðinsgötu í gær.
Frá Óðinsgötu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vítavert sinnuleysi og vanræksla eigenda hússins við Óðinsgötu, þar sem eldur kom upp í gær, hefur stefnt lífi og eigum íbúa í hverfinu í hættu. Þetta segir Magnús Þór Þorbergsson, íbúi við Óðinsgötu, sem vakið hafði athygli á ástandi hússins áður en bruninn varð.

„Við tilkynntum borgaryfirvöldum og lögreglu fyrir mánuði síðan að hústökufólk hefði tekið sér bólfestu í húsinu, en það hafði þá staðið autt í töluverðan tíma. Við vildum tryggja það að húsinu yrði lokað, einna helst því við höfðum áhyggjur af því að þarna skapaðist brunahætta, eins og fordæmi eru fyrir,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

„Ég fylgdi þessu máli eftir og fékk að vita það að byggingarfulltrúi væri búinn að senda erindi á eigendur hússins, um að þeim bæri skylda til að loka húsinu og sjá til þess að það væri mannhelt.“

Bætir hann við að ekki hafi örlað á viðbrögðum eigenda hússins, en hann hafi fengið þær upplýsingar að um eignarhaldsfélag væri að ræða.

„Í framhaldinu gerðist ekki nokkur skapaður hlutur. Eigendur létu ekki sjá sig og sinntu þessu ekki. Að mínu mati er þessi bruni því algjörlega á ábyrgð eigendanna.“

Þétt byggð er í grennd við húsið.
Þétt byggð er í grennd við húsið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt rifið út úr húsinu

Magnús segir að um sé að ræða tvær samfastar eignir, Óðinsgötu 14a og 14b, og að búið hafi verið í þeim báðum þar til fyrir um ári síðan. „Þá fóru einhverjar framkvæmdir af stað, þó með hléum, og enduðu með að allt var í raun rifið út úr húsinu, þar á meðal panill, ofnar og fleira, þannig að ekkert var eftir inni í því.“

Þétt byggð er í grennd við húsið og getur eldsvoði því skapað mikla hættu fyrir nærliggjandi hús, eins og sjá mátti af miklu viðbragði slökkviliðs í gær.

„Þetta er ansi þétt og timburhús í næsta nágrenni. Maður sá enda að slökkviliðið tók þetta mjög alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert