Fór aftur inn og slökkti eldinn

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í tvö brunaútköll í nótt.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í tvö brunaútköll í nótt. mbl.is/Eggert

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var með mikinn viðbúnað í nótt eftir að tilkynning barst um eld og mikinn reyk innandyra í fjölbýlishúsi á Boðagranda í Reykjavík. Betur fór en á horfðist í fyrstu.

Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir að mikill reykur hafi verið í sameigninni og að fólk hafi ekki þorað fram á gang þegar tilkynning barst rúmlega fjögur í nótt. Í ljós kom að það logaði eldur í íbúð sem húsráðendur náðu svo sjálfir að slökkva. 

Fólkið vaknaði við hávaða frá reykskynjara. Að sögn varðstjóra fór fólkið fram á gang en kona, sem var í íbúðinni, tók með sér slökkvitæki fram á gang. Hún fór svo aftur inn í íbúðina og náði að slökkva eld sem logaði í eldhúsinu. Reykur var hins vegar töluverður.

Allt tiltækt lið var sent á staðinn en útkallið var afturkallað hjá öllum nema einni stöð þegar það kom í ljós að búið væri að ráða niðurlögum eldsins. Húsið var því reykræst í nótt. Fólkið í umræddri íbúð var flutt á slysdeild til skoðunar. Talið er að eldurinn hafi kviknað við eldavélina, en eldsupptök eru annars ókunn. 

Fyrr um nóttina, eða um tvöleytið, var slökkviliðið kallað út vegna reyks á veitingastað á Garðatorgi í Garðabæ. Grunur leikur á að það hafi gleymst að slökkva undir einu grilli á staðnum með þeim afleiðingum að talsverður reykur myndaðist innandyra. Enginn eldur var hins vegar laus. Húsið var reykræst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert