Kerfislausnir dugi ekki við lausn vandamála

Sigmundur flutti stefnuræðu sína á landsþingi Miðflokksins í dag.
Sigmundur flutti stefnuræðu sína á landsþingi Miðflokksins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Miðflokkurinn er ekki í vandamálabransanum, heldur í lausnabransanum,” sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á Landsþingi flokksins í dag. Sigmundur var endurkjörinn formaður flokksins á þinginu í gær og í stefnuræðu sinni í dag lýsti hann nýrri aðferðafræði Miðflokksins við að takast á við viðfangsefni samtímans í stjórnmálunum.

Í ræðu sinni fjallaði hann að mestu um umhverfis- og orkumál í því skyni að kynna til sögunnar nýja aðferðafræði í stjórnmálum og tók m.a. dæmi um endurvinnslu, plastmengun og hlýnun í lofthjúpi jarðar. Meginþráðurinn í máli Sigmundar var að ekki væri endilega allt sem sýndist í þessum málefnum og að kerfislausnir hentuðu jafnan illa við að leysa vandamál. Kjarninn var sá að líta þyrfti á stóru myndina.

Frá landsþingi Miðflokksins í Kaldalóni í gær þar.
Frá landsþingi Miðflokksins í Kaldalóni í gær þar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fólki hættir mjög til þess að taka ákveðnum hlutum sem gefnum í stað þess að skoða þá upp á nýtt. Það stingur höfðinu í sandinn og vill ekki ræða staðreyndir. Oft er það vegna þess að kerfin sem eru byggð upp til að fást við viðfangsefnin hafa hag af óbreyttri nálgun. Það á ekki síst við í stærstu málunum þar sem mest er undir, þar geta hagsmunirnir í vandamálabransanum verið stærstir,” sagði hann og bætti við að oft byggði lausn vandamála í stjórnmálaum á ímyndarvinnu frekar en innihaldinu.

Ekki allt sem sýnist

Meðal annars tók Sigmundur sem dæmi að aðeins nokkur fljót og ár skiluðu í sjóinn lang mestu plasti í sjóinn, aðeins 10 ár skiluðu um 90% alls plast í sjóinn. Til að leysa vandann, þyrfti að líta á stóru myndina.

Því næst lýsti Sigmundur því að jafnvel þótt margir notuðu bómullarpoka, hefðu rannsóknir sýnt að slæm umhverfisáhrif af bómullarpokum, þegar á heildina væri litið, væru einnig gífurlega mikil. Til að hafa sömu umhverfisáhrif og einn plastpoki, þyrfti að nota bómullarpoka 173 sinnum. „Bómullarrækt er gífurlega óumhverfisvæn á nánast alla mælikvarða,” sagði hann.

Ágæt mæting var í Norðurljósasal Hörpu á landsþingi Miðflokksins í …
Ágæt mæting var í Norðurljósasal Hörpu á landsþingi Miðflokksins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig fjallaði Sigmundur um gróðurhúsalofttegundir og lýsti því að ýmis efni sem komu í stað efna sem höfðu slæm áhrif á ósonlagið væru þau sömu efni og teldust til gróðurhúsalofttegunda og yllu hlýnun jarðar nú. Sigmundur sagði gróðurhúsalofttegundirnar ekki vera mengun og að þær væru flestar óeitraðar og mikilvægar til að líf þrifist á jörðinni, en nú væri hins vegar of mikið af þeim. Til að líta á stóru myndina þyrfti að hafa þetta í huga.

Sigmundur sagði Íslendinga framleiða langmest af orku í heiminum á hvern íbúa og það á umhverfisvænan hátt. Fjallaði hann um stóraukna losun gróðurhúsalofttegunda í Kína síðustu tuttugu ár. Ástæðan væri mikil kolabrennslan í Kína í því skyni að framleiða orku, þetta ætti lika við um Indland. Bandaríkin hefðu aftur á móti minnkað losun gróðurhúsalofttegunda með því að færa sig í auknum mæli yfir í gas sem orkugjafa.

Líti í auknum mæli til vísindanna

Sigmundur sagði vísindi, hvata og bönn í sumum tilvikum geta verið réttar leiðir til þess að snúa þróuninni við, þ.e. með hliðsjón af stóru myndinni. Tók hann dæmi af Elon Musk, forstjóra Tesla, og nýjum þakskífum sem fyrirtækið hefur framleitt í því skyni að framleiða sólarorku sem nægir einu heimili.

Einnig nefndi hann framþróun í brennslu á heimilissorpi í því skyni að framleiða orku, ýmsum nýjum leiðum til að hreinsa hafið og nýjar „kolefnisryksugur” sem hreinsa andrúmsloftið. Nú væri einnig búið að finna ensím sem leyst gæti upp plast. Rannsóknir í þessa veru þyrfti hið opinbera að styðja.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á landsþingi Miðflokksins í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á landsþingi Miðflokksins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nefndi hann að hér á landi væru lausnir einkum fólgnar í fjölgun rafmagnsbíla í ljósi þess að orka þeirra væri hrein. Einnig nefndi Sigmundur styrkingu landgræðslu og skógræktar sem væru þekktar stærðir í umhverfisvernd. Gagnrýndi hann hugmyndir um endurheimt votlendis, í ljósi þess að fátt væri vitað um áhrif af slíkum aðgerðum. 

Greini vandann, finni lausnina og framkvæmi

Sigmundur sagði að líta þyrfti á heildaráhrif af aðgerðum þegar kæmi að umhverfismálum og stóru myndina.

„Kerfishugsun dugar ekki til að leysa stór viðfangsefni. Hér hef ég aðeins tekið eitt dæmi, umhverfis- og orkumálin, en gæti haldið sams konar erindi um ýmsa aðra málaflokka. Það mun ég gera um skipulagsmál og samgöngumál núna fljótlega. Málin væru flest leysanleg ef fólk nálgst viðfangsefni með því að líta á staðreyndir og meta þær rökrétt og framkvæma,” sagði Sigmundur Davíð.

„Miðflokkurinn greinir vandann, finnur lausnina og framkvæmir,” sagði hann að lokum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert