Neitaði að yfirgefa húsið

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók ölvaðan karlmann í gærkvöldi sem neitaði að yfirgefa íbúðarhúsnæði sem hann hafði farið inn í. Þá mun maðurinn einnig hafa verið að ganga á móti umferð á akbrautum.

Tilkynning um atvikið barst um kl. 19:15. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð og síðar vistaður vegna ástands í fangageymslu lögreglu.

Um þrjúleytið í nótt var annar maður handtekinn eftir að hafa veist að dyravörðum á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur.  Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í húsnæði við Vesturhlíð í Reykjavík. Ekki er vitað hverju var stolið en maður var handtekinn grunaður um aðild að innbrotinu og vistaður í fangageymslu. 

Þá hafði lögreglan afskipti af nokkrum ökumönnum í gærkvöld og í nótt sem eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Mm 21:30 í gærkvöldi var tilkynnt um bifreið sem var að aka á móti umferð og var rásandi á veginum. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  Að lokinni sýnatöku var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert