Von á tillögum til úrbóta í sumar

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var gestur Páls Magnússonar í …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var gestur Páls Magnússonar í Þingvöllum í morgun. mbl.is/Rax

Tillögur frá menntamálaráðuneytinu til úrbóta fyrir rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verða væntanlega birtar með haustinu, en Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra fær fyrstu drög í byrjun júní. Hún segir stefnt að því að virðisaukaskattur af áskriftum verði samræmdur og gert sé ráð fyrir talsverðum fjármunum til að takast á við þetta á tekjuhlið fjármálaáætlunnar.

Þetta kom fram í máli hennar í þættinum Þingvellir á K100 í morgun.

Páll Magnússon þáttastjórnandi spurði Lilju hvers konar tillagna væri að vænta, og sagði hún að m.a. væri verið að skoða umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og auglýsingar á áfengi.

„Ég hef sjálf sagt að ég muni láta lýðheilsuleg rök ráða minni afstöðu hvað það varðar en mér finnst mjög brýnt að tillögur sem koma frá hópi sérfræðinga séu skoðaðar.“

Skoða rannsóknarstyrk blaðamanna

Lilja segir staðreynd að fá ríki styðji eins lítið við sína einkareknu fjölmiðla en Ísland. „Þetta tengist auðvitað líka íslenskunni. Samkeppni frá erlendum miðlum fer vaxandi og þá er brýnt að hafa öfluga íslenska fjölmiðla sem geta miðlað til okkar vönduðu máli og að að þeim sé gott aðgengi.“

Hún segir ráðuneytið einnig vera að skoða nýjar tillögur, aðrar en þær sem fram komu í fjölmiðlaskýrslunni sem út kom í janúar. „Við erum til að mynda að skoða hugsanlegan rannsóknarsjóð fyrir blaðamenn.“

Hún játar því að virðisaukaskattur af áskriftum verði samrýndur og segir að í tekjuhlið fjármálaáætlunarinnar sé ráð gert fyrir talsverðum fjármunum til þess að takast á við þessi mál.

 Hlusta má á viðtalið við Lilju í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert