Sindri fyrir hollenskan dómara á morgun

Sindri Þór verður leiddur fyrir dómara í Amsterdam á morgun. …
Sindri Þór verður leiddur fyrir dómara í Amsterdam á morgun. Þá verður tekin ákvörðun um gæsluvarðhald og framvindu framsals. Ljósmynd/Saksóknaraskrifstofa Hollands

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu að Sogni, verður leiddur fyrir hollenskan dómara á morgun sem mun taka ákvörðun um hvort hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan framsal hans til íslenskra yfirvalda er til umfjöllunar fyrir hollenskum dómstólum, segir Evert Boerstra, fjölmiðlafulltrúi héraðssaksóknara í Amsterdam í samtali við mbl.is.

Um framsalsferlið segir Boerstra að það sé óljóst hversu langan tíma það getur tekið. Hann segir Sindra Þór geta veitt samþykki fyrir flýtimeðferð og þá væri hægt að framselja Sindra Þór til íslenskra yfirvalda innan 10 daga. Veiti Sindri Þór ekki samþykki fyrir flýtimeðferð getur framsalsferlið tekið fleiri mánuði.

Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra Þórs, sagði við mbl.is fyrr í dag að hann geri ráð fyrir því að Sindri Þór komi til landsins á næstu dögum. Má því ætla að Sindri Þór mun samþykkja flýtimeðferð á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert