Útbúa leiðbeiningar um dýr á kaffihúsum

Leiðbeiningar með nýrri reglugerð sem heimila hunda og ketti á …
Leiðbeiningar með nýrri reglugerð sem heimila hunda og ketti á veitingastöðum er væntanleg á næstu vikum og mögulega geta einhverjir staðir í kjölfarið heimilað gestum sínum að kíkja með dýrin í kaffi. AFP

Matvælastofnun vinnur nú að gerð leiðbeininga um matvælaöryggi á þeim veitinga- og kaffihúsum sem vilja leyfa gestum að koma með hunda og ketti sína þangað inn. Gert er ráð fyrir að leiðbeiningarnar verði tilbúnar í byrjun sumars að sögn Dóru Gunnarsdóttur, forstöðumanns Neytendaverndar hjá MAST.

Mbl.is greindi frá því í síðasta mánuði að kaffi­hús­um í Reykja­vík virðist ill­mögu­legt að upp­fylla skil­yrði heil­brigðis­eft­ir­lits borg­ar­inn­ar fyr­ir að leyfa gælu­dýr.

Dóra segir beiðni hafa borist frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í byrjun árs um að MAST túlkaði reglugerð sem Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, staðfesti þar sem veitingastöðum var leyft að heimila gestum að koma með hunda og ketti. „Þeir óskuðu þess að við túlkuðum hvað ætti að horfa á með tilliti til matvælaöryggis,“ segir hún.

Í kjölfarið fundaði Matvælahópur, sem er vettvangur MAST og heilbrigðiseftirlita um land allt, um málið. „Við tókum þetta fyrir þar strax í byrjun ársins, höfum verið að ræða þessi mál og nú liggja fyrir drög að leiðbeiningum sem eru í umsagnarferli“ segir Dóra. Kveðst hún gera ráð fyrir að leiðbeiningar verði tilbúnar fyrir lok maímánaðar.

Vilja að það sama gildi um allt land

Dóra segir samhug í hópinum um að þörf sé á leiðbeiningunum og að viðhorf til málsins séu almennt jákvæð. „Menn vilja fá samræmdar reglur um það hvernig þeir eigi að líta á þetta, þannig að það sama gildir um allt land,“ segir Dóra. Það sé starf Matvælahópsins að túlka það sem er óskýrt í lögum og reglum svo allir séu að lesa í lögin með sama hætti.

Mbl.is ræddi í síðasta mánuði við Björn Hauks­son, eig­anda Kaffi Lauga­lækj­ar, sem ætlaði að heimila hunda á kaffihúsi sínu. Sagði hann þá að eins og reglurnar hefðu verið útskýrðar fyrir sér, að þá mætti ekki fram­reiða mat og drykk í sama rými og dýrið væri. „Eins og hann út­skýrði þetta fyr­ir mér þá mætti ekki held­ur finna til kök­ur eða búa til kaffi og te í sama rými. Þá hugsaði ég með mér að það væri eng­inn staður á Íslandi sem upp­fyll­ir þetta,“ sagði Björn.

Spurð hvort að leiðbeiningarnar taki á því  hvort að laga megi kaffi og aðra drykki í sama rými og dýrið er í, segir hún svo vera. „Þetta er túlkun á því sem stendur í löggjöfinni og hvað sé átt við með tilreiðslu, meðhöndlun og geymslu matvæla inni í veitingastað. Það er það sem menn eru óöruggir með.“ Verið sé að túlka hvað megi gera.

Skoða hvernig málum sé háttað í öðrum löndum

„Ég held að það sem skiptir máli er að verja matvæli fyrir mengun. Það er aðalatriðið og hvernig það er gert. Þannig gengur kannski ekki að vera með hlaðborð frammi í veitingasal á stað þar sem leyfilegt er að koma með hunda eða ketti, en það gæti væri að lagi að tilreiða mat bak við afgreiðsluborð,“ segir hún.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur óskað eftir því að kannað sé hvernig þessum málum er háttað í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Dóra segir það hafa verið gert við undirbúning leiðbeininganna, sem og að hafa aðstæður þannig að dýrin komist ekki í matvælin. „Þetta er heimilt í mörgum löndum og ég og fleiri höfum verið á veitingastöðum þar sem dýr hafa verið inni,“ segir hún.

 „Það er síðan að sjálfsögðu alltaf eiganda dýranna að tryggja að þau hagi sér í veitingasalnum,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert