Sigurlás Þorleifsson, skólastjóri í Vestmannaeyjum, er látinn. Hann varð bráðkvaddur í göngu á Heimakletti í Eyjum síðastliðið þriðjudagskvöld, 24. apríl. Sigurlás var fæddur í Vestmannaeyjum 15. júní 1957, sonur hjónanna Þorleifs Sigurlássonar og Aðalheiðar Óskarsdóttur.
Hann lauk prófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni árið 1980 og aflaði sér seinna réttinda til kennslu í grunn- og framhaldsskóla.
Sigurlás var íþrótta- og bekkjarkennari við Barnaskóla Vestmannaeyja frá 1980 til 1984 og frá 1988 grunnskólakennari við Hamarsskóla í Vestmannaeyjum, Álftanesskóla og Garðaskóla í Garðabæ allt fram til ársins 1999. Það ár tók hann við starfi aðstoðarskólastjóra Hamarsskóla í Eyjum sem hann gegndi til ársins 2006, þegar skólinn var sameinaður öðrum undir nafni Grunnskólans í Vestmannaeyjum. Þar var Sigurlás aðstoðarskólastjóri fram til 2013 er hann tók við starfi skólastjóra sem hann gegndi fram á síðasta haust. Þá fór hann í leyfi til náms við Háskóla Íslands, en hugðist snúa aftur til starfa við grunnskólann á komandi hausti.
Um langt árabil lék Sigurlás með meistaraflokki ÍBV í knattspyrnu og varð meðal annars bikarmeistari með liðinu árið 1981. Hann varð þrívegis markakóngur efstu deildar Íslandsmótsins, fyrst árið 1979 þegar hann lék eitt ár með Víkingi, og síðan aftur með ÍBV árin 1981 og 1982. Hann var lengi markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins og er í dag þriðji markahæstur Eyjamanna í efstu deild með 60 mörk. Þá er hann sextándi markahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla á Íslandi með alls 70 mörk fyrir ÍBV og Víking.
Sigurlás lék á þessum árum 10 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim tvö mörk, bæði árið 1980 í leikjum við Færeyjar og Noreg. Hann var leikmaður og þjálfari Selfoss árið 1983 og lék í nokkur ár í Svíþjóð með liðinu Vasalund.
Eftirlifandi kona Sigurláss er Guðrún Karen Tryggvadóttir stuðningsfulltrúi. Þau eignuðust fjögur börn; Jónu Heiðu, Söru, Kristínu Ernu og Þorleif. Fyrir átti Sigurlás dótturina Kolbrúnu.