Ferðamaður í sjálfheldu við Skaftafellsjökul

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir á Suðausturlandi voru kallaðar út upp úr hádegi í dag vegna erlends ferðamanns sem hafði hrasað í skriðu við Skaftafellsjökul. Maðurinn rann og nam staðar á syllu rétt fyrir ofan straumharða á.

Björgunarsveitarfólk og nærtækir leiðsögumenn voru komnir á vettvang um hálfeittleytið að því er fram kemur í tilkynningu Landsbjargar og eru búin að koma upp tryggingum til að tryggja öryggi sitt og mannsins. Vinna er þegar hafin við að hífa manninn upp.

Eru það björgunarsveitarmenn frá Öræfum, Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri ásamt sjúkraflutningamönnum, lögreglu og leiðsögumönnum af svæðinu sem eru á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert