„Fjósið“ eins og ferð til útlanda

Stuðningsmenn Vals hituðu upp í Fjósinu fyrir leik gegn Keflavík.
Stuðningsmenn Vals hituðu upp í Fjósinu fyrir leik gegn Keflavík. Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var ótrúlegur dagur, alveg svakalega gaman,“ segir Gunnar Kristjánsson „Fjósameistari“ í samtali við mbl.is. Valsarar opnuðu nýtt félagsheimili eða bar á gömlum grunni á föstudagskvöld fyrir fyrsta leik liðsins í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þetta árið.

Erkifjendur Valsara úr Vesturbænum komu í heimsókn og má segja að Valsarar hefðu ekki getað óskað eftir betri kvöldstund. Valur vann leikinn 2:1 þar sem sigurmarkið var nánast skorað á síðustu andartökum leiksins. Þar fyrir utan var veður gott, fjöldi fólks lagði leið sína á völlinn og margir litu við á nýja/gamla barnum; Fjósinu.

Bar á gömlum og traustum grunni

Fjósið var áður fjós og hlaða en húsið var byggt árið 1916. Það var vígt sem félagsheimili Vals 1948 og þar hittust stuðningsmenn fyrir leiki langt fram eftir 20. öldinni.

Haraldur Jónasson/Hari

„Við erum hérna við hliðina á kapellunni,“ segir Gunnar. Valsarar komu saman í Fjósinu fyrir leiki á árum áður en árið 1987 var félagsheimilið fært inn í íþróttahúsið. Á næstu árum var Fjósið í niðurníðslu og jafnvel var rætt hvort ætti að rífa húsið.

„Seinna var stofnuð nefnd um verndun Fjóssins og nokkrir vaskir menn tóku sig saman um að byggja þetta upp,“ segir Gunnar en arkitektinn Kristján Ásgeirsson á heiðurinn á andlitslyftingunni sem húsið fékk.

Formlega vígt á afmæli séra Friðriks

„Það er pláss fyrir allt að 150 manns hérna inni. Við ætlum að byggja torg hér fyrir framan en á föstudagskvöld vorum við með tjald fyrir framan húsið,“ segir Gunnar en Valsarar, og annað knattspyrnuáhugafólk, getur kíkt á staðinn fyrir leiki á Hlíðarenda í sumar.

„Við vígjum Fjósið síðan formlega 25. maí en þá hefði séra Friðrik orðið 150 ára gamall.“

Haraldur Jónasson/Hari

Gunnar segir að bjórinn sé ekkert vandamál en töluvert hefur verið rætt og ritað um bjórneyslu fólks fyrir kappleiki og ýmsir hafa kallað eftir því að fólki sé leyft að „fá sér einn eða tvo“ áður en það heldur á völlinn.

„Eins og á leik í útlöndum“

„Fólk tekur áfengið ekkert með sér, heldur fær sér smá þarna fyrir leik. Það er stranglega bannað að taka með sér inn á völlinn,“ segir Gunnar. Hann segir að stemningin fyrir leik á föstudag hafi verið frábær en margir töluðu um að andrúmsloftið hefði verið eins og á leik utan landsteinanna.

Haraldur Jónasson/Hari

„Það kíktu margir KR-ingar til mín fyrir leikinn og þeir voru mjög ánægðir með þetta. Það voru allir vinir fyrir leik,“ segir Gunnar og hlær en Valsarar brostu sínu breiðasta og hópuðust aftur í Fjósið að leik loknum. KR-ingar hafa líklega drifið sig heim og grátið í koddann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert