Hafa engin raunveruleg vopn í baráttunni

Inga María segir ljósmæður ekki hafa nein raunveruleg vopn í …
Inga María segir ljósmæður ekki hafa nein raunveruleg vopn í kjarabaráttu. Ljósmynd/Aðsend

„Ljósmæður hafa engin raunveruleg vopn í kjarabaráttu. Fari þær í verkfall er sett á þær lögbann. Neiti þær að vinna umfram vinnuskyldu sína er sett á þær lögbann. Segi stór hluti upp er bara meira álag á þeim sem eftir standa. Í gegnum tíðina hafa sumar jafnvel þurft að vinna í verkfalli og ekki fengið greitt fyrir það. Semsagt unnið frítt. Þetta er ekki ýkt og þetta er ekki grín.“

Þetta skrifar ljósmóðurneminn Inga María Hlíðar Thorsteinson á Facebook-síðu sína í dag. Hún segist hafa átt að vera á launalausri vakt í verknámi sínu í dag, en fékk leyfi til þess að færa vaktina, þar sem það samræmdist ekki hennar prinsippum að mæta á launalausa vakt á sjálfan baráttudag verkalýðsins.

„Það er extra-slæmt að fá svona í andlitið. Ég get sagt það að ég er mjög sár. Ég upplifi mikið vonleysi og er mjög sár,“ segir Inga.

Inga María er 26 ára gömul og að klára ljósmóðurnámið núna í vor. Hún segir að yfirstandandi kjarabarátta og afstaða stjórnvalda gagnvart stétt ljósmæðra hafa áhrif á vilja sinn til þess að gera starf ljósmóður að sínu ævistarfi.

„Mér finnst ótrúlega erfitt að segja það, af því að mig hefur alltaf langað til að vinna við þetta starf en núna er ég bara mjög hugsi yfir þessu öllu og ég fer ekki alveg með sama huga inn í þetta starf. Ég komst ekki að því fyrr en ég byrjaði í náminu hvað það er rosalega margt sem þarf að gerast í þessari stétt. Það er að hluta til af því að við hlaupum alltaf til og reddum því sem þarf að redda og maður hefur bara séð það í samtölum við fleira fólk, til dæmis mjög margir karlmenn sem ég hef talað um þetta við myndu aldrei láta þetta yfir sig ganga.“

Inga María segir að í þessu samhengi skipti það máli að ljósmæður séu kvennastétt. Þær séu ekki metnar að verðleikum af þeim sökum.

„Það er bara mín reynsla og ég neitaði að trúa því fyrst. Ég var ekki mikil kvenréttindakona þegar ég hóf námið, alls ekki, en þegar maður er búinn að reyna þetta á eigin skinni þá er ég komin á þá skoðun.“

Inga María er á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar og segist hafa átt erfitt með að taka þátt í þeirri baráttu, vegna ástandsins í kjarabaráttu ljósmæðra.

Sendi fjármálaráðherra bréf

En að hverju myndi Inga María vilja spyrja Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, formann flokksins sem hún er í framboði fyrir í Reykjavík?

„Ég spyr mig hvort að hann átti sig á því og hvort að hann sé samþykkur því að þetta sé svona út af því að þetta sé kvennastétt og því sé komið svona fram við hana. Hvort að hann viðurkenni það að það sé málið.“

Hún segist raunar hafa sent Bjarna Benediktssyni bréf um daginn þar sem hún spurði hann út í þessi mál og fengið greinargott svar til baka. „Ég sagði að við hefðum í raun engin vopn og gætum lítið gert,“ segir Inga María.

„Hann sagði í rauninni að eini sénsinn okkar í þessari kjarabaráttu væri ef önnur félög myndu lýsa yfir stuðningi við ljósmæður, að þær fengju launaleiðréttingu sem önnur félög myndu þá ekki fá. Það fannst mér lýsa þessu viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að semja við okkur. Ég skil samt alveg sjónarmið ríkisstjórnarinnar mjög vel, að það fari ekki allir að krefjast launaleiðréttinga og allt fari í vitleysu.

En mér finndist í ljósi allrar umræðu um kvennastéttir og launaleiðréttingu að það væri engin stétt betur til þess fallin að leiðrétta kjörin en ljósmæður. Þetta er ekki stór stétt, við höfum gríðarlega mikinn meðbyr og stuðning frá öðrum félögum og almenningi og ef að það er ekki hægt að byrja að leiðrétta kjörin hjá þessari stétt, þá veit ég ekki hvar ætti í rauninni að byrja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert