Hlýnar í veðri um og eftir helgi

Hlýindum gæti fylgt dálítið mikil rigning á sunnan- og vestanverðu …
Hlýindum gæti fylgt dálítið mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Nokkuð kalt hefur verið í veðri víðast hvar á landinu undanfarna tvo daga og samkvæmt spám verður áframhald á því. Veðrið fram að helgi „eru svona 2 til 7 gráður að deginum og nálægt frostmarki yfir nóttina, allavega á suðvesturhorninu, en nokkuð víða næturfrost inn til landsins,“ að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Það er svona suðvestanátt, strekkingsvindur fram á helgina og svo sýnist mér núna að það stefni í að það fari að hlýna svona hægt og rólega á sunnudag og meiri hlýindi síðan strax eftir helgi.

En því fylgir náttúrlega dálítið mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu. Þannig að það er svona spurning hvort þykir betra. Það er smekksatriði,“ segir Óli Þór.

Nokkrir góðir dagar í næstu viku

Kuldapollur liggur vestan við Grænland þessa dagana og hefur áhrif á veðrið hérlendis. Spám ber ekki saman um hvort við höldum áfram að fá einhver skot úr honum.

„Það er alltaf viðbúið að það geti gert einhver slydduél,“ segir Óli Þór.

„En með hverjum deginum sem líður hækkar sólin á lofti og hennar áhrifa gætir bara enn meir, þannig að veturinn á nú erfitt með að halda tökunum,“ bætir Óli við. Hann segir að nokkrir góðir dagar gætu komið fyrripartinn í næstu viku.

„Sérstaklega fyrir Norður- og Austurland kannski, þar sem þetta eru sunnanáttir og þær verða alla jafna hlýjastar fyrir norðan og austan. Þeir hafa fengið lítið undanfarið og það er kannski allt í lagi að það fari að grænka hjá þeim líka,“ segir Óli.

Veðurhorfur á öllu landinu næsta sólarhringinn

Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og él S- og V-lands en annars þurrt að kalla. Hægari og úrkomulítið á V-verðu landinu seint í nótt, en sunnan 5-10 og slydduél seinnipartinn. Suðaustan 5-10 og slydda eða rigning með köflum A-til á morgun en styttir upp annað kvöld. Hiti 1 til 7 stig að deginum, mildast SA-lands, en víða næturfrost inn til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert