Ótrúleg saga af íslensku flöskuskeyti

Það er með ólíkindum að Vignir hafi gefið flöskunni gaum …
Það er með ólíkindum að Vignir hafi gefið flöskunni gaum og séð að hún var ekki rusl. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst þetta alveg stórmerkilegt,“ segir Vignir Arnarson, sem búsettur er í Noregi, en um síðustu helgi fann hann flöskuskeyti sem þrjár íslenskar stelpur sendu úr Skötufirði í Ísafjarðardjúpi í ágúst árið 2016. Flöskuskeytið fann hann við ruslatínslu á lítilli eyju fyrir utan bæinn Molde á vesturströnd Noregs, en sjálfur býr hann í Farstad, sem er ekki langt frá.

„Við vorum á pínulítilli eyju að tína rusl ásamt fullt af fólki, en við fundum þetta. Flaskan lá bara þarna eins og hvert annað plastrusl,“ segir Vignir en sonur hans var með honum þegar hann opnaði flöskuna. Þeir tóku þátt árlegri ruslatínslu á svæðinu, þar sem rusl er tínt í fjörum og eyjum, en fylltir voru sextán stórir pokar af plastrusli. Það má því teljast með ólíkindum að Vignir hafi gefið flöskunni gaum og séð að hún var frábrugðin öðru rusli.

Stelpurnar hvöttu viðtakandann til að kíkja við í Litlabæ.
Stelpurnar hvöttu viðtakandann til að kíkja við í Litlabæ. Ljósmynd/Aðsend

Hann sá að bréf var í flöskunni og hrísgrjón og ákvað að kanna málið nánar. „Mér fannst þetta skrýtið þannig við opnuðum flöskuna. Svo sá ég íslenskuna, en ég var ekki alveg að kveikja fyrst, en svo sagði við son minn: „bíddu þetta er íslenska?“ Það var voðalega fyndið,“ segir Vignir sem búsettur hefur verið í Noregi frá árinu 1997, þannig það er ekki skrýtið að hann hafi ekki áttað sig á íslenskunni strax.

Sendu stelpunum strax skilaboð

Bréfið má sjá í heild sinni hér til hliðar en stelpurnar hvöttu viðtakandann til að kíkja við á Litlabæ í Skötufirði og fá sér heimsins bestu vöfflur, en þar er rekið lítið sögusafn á sumrin.

„Við urðum voða spenntir og sendum strax skilaboð til stelpnanna,“ segir Vignir en viðbrögð bárust mjög fljótt og var það móðir einnar stúlkunnar sem svaraði.

„Það er líka svo fyndið að þetta skuli koma úr Ísafjarðardjúpi því konan mín er frá Bolungarvík og er sennilega skyld þessu fólki. Það væri gaman að vita hverjar líkurnar á þessu eru.“

Stefna á að kíkja í vöfflur í sumar

Svo skemmtilega vill líka til að Vignir og fjölskylda stefna á heimsókn til Íslands í sumar og ætla einmitt vestur á firði. „Aldrei þessu vant þá ætlum við að fara til Íslands. Við ætlum fara í Víkina (Bolungarvík) þannig kannski að maður kíki í vöfflur. Maður verður að stoppa við fyrst við verðum á ferðinni.“

Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir, móðir Huldu Sigríðar Friðfinnsdóttur, einnar stúlkunnar sem sendi skeytið segir þær hafa orðið mjög hissa fyrst þegar Vignir hafði samband. „Þær voru ekki alveg að trúa þessu, voru mjög svo spenntar og fannst merkilegt að það hefðu verið Íslendingar sem fundu það.“ Guðrún vonast til að Vignir og fjölskylda kíki við í vöfflur í sumar, en það eru foreldrar hennar sem reka safnið í Litlabæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert