Dópaður á 125 km hraða á Kringlumýrarbraut

Lögreglan stöðvaði för nítján ára gamals ökumans á Kringlumýrarbrautinni í gærkvöldi en bifreiðin hafði við hraðamælingu mælst á 125 km hraða. Í ljós kom að ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna.

Um áttaleytið í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp við Nýbýlaveg. Bifreið hafði verið ekið á aðra bifreið og síðan á brott er tjónþoli vildi fylla út tjónaskýrslu.  Tjónvaldur, ung kona, var stöðvaður skömmu síðar. Hún er grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Konan er vistuð í fangaklefa þar sem hún beitti lögreglu ofbeldi, beit lögreglukonu, þegar verið var að handtaka hana. 

Síðdegis í gær var bifreið stöðvuð af lögreglu í Ármúla. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Á níunda tímanum í gærkvöldi var bifreið stöðvuð við Kristnibraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, að aka sviptur ökuréttindum og einnig fyrir brot á vopnalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert