Lögreglan kölluð til vegna tösku

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

Haft var samband við lögregluna í Reykjanesbæ vegna grunsamlegrar tösku í suðurbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á veitingasvæðinu á hinu svokallaða non-Schengen-svæði.

Gerð hafði verið svokölluð snefilathugun á töskunni og reyndist niðurstaðan vera rauð. Þrátt fyrir að það sé ekki staðfesting á neinu var ákveðið að kalla lögregluna til.

Önnur snefilathugun var þá gerð á töskunni og þá reyndist niðurstaðan græn og fannst ekkert torkennilegt í töskunni, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.

Lögreglan ákvað að nýta atvikið sem viðbragðsæfingu og meðhöndlaði töskuna þannig. Hundur var í för með lögreglunni.

Svæðið var ekki rýmt, heldur var fólk beðið um að vera ekki í kringum töskuna.

Guðjón segir að aldrei hafi hætta verið á ferðinni og að atburðurinn hafi ekki nein áhrif á flugferðir.

Starfsmaður frá öryggisstjórnstöð var á vettvangi til að upplýsa ferðamenn um hvað var að gerast.

Guðjón kveðst ekki vita hvaðan taskan kom. Minnir hann fólk á að passa vel upp á farangurinn sinn í flugstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert