Úrskurður um farbann felldur úr gildi

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að bandarískur ferðamaður skuli sæta farbanni vegna slyss sem varð á vegöxl á Reykjanesbraut á móts við Tjarnarvelli í Hafnarfirði í síðasta mánuði.

Bandaríkjamaðurinn var í héraðsdómi dæmdur í farbann til 6. júlí.

Í greinargerð lögreglustjóra í úrskurði héraðsdóms kemur fram að ökumaður bifreiðar hafi stöðvað hana við vegöxlina og farið út úr henni til að fjarlægja bolta af veginum sem hafi valdið ökumönnum truflun.

Önnur bifreið sem var á eftir bifreiðinni var einnig stöðvuð og tendraði ökumaður hennar viðvörunarljós öðrum vegfarendum til viðvörunar.

Skömmu síðar kom bifreið með hestakerru í eftirdragi og ákvað ökumaður hennar að fara yfir á öfugan vegarhelming og fram hjá hinum kyrrstæðu bílunum.

Í nær sömu andrá hafi bandaríski ferðamaðurinn sem ók bifreið fyrir aftan bifreiðina með hestakerruna ekið aftan á hana og við það kastaðist síðarnefnda bifreiðin á ökumann bifreiðarinnar sem stöðvaði fyrst til að fjarlægja boltann.

Við höggið hlaut ökumaðurinn lífshættulega áverka.

Bandaríski ferðamaðurinn slasaðist einnig í árekstrinum. Hinir slösuðu voru fluttir á slysadeild Landspítalans.

Fram kemur í niðurstöðu Landsréttar að með vísan til þess fram kemur í rannsóknargögnum málsins er fallist á það að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað við 219. gr. almennra hegningarlaga.

Aftur á móti segir þar að ekkert hafi komið fram í málinu sem leiði líkur að því að Bandaríkjamaðurinn muni reyna að leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert