Biðtími hefur lengst um 70% frá 2014

Biðlistar eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrými hafa lengst og biðtíminn …
Biðlistar eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrými hafa lengst og biðtíminn sömuleiðis. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Biðlistar eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrýmum hafa lengst á undanförnum árum, samkvæmt nýrri samantekt Embættis landlæknis um bið eftir hjúkrunarrýmum hérlendis. Biðtími eftir hjúkrunarrými hefur lengst um nær 70% frá árinu 2014 og í samantekt embættisins er lýst yfir áhyggjum af þeirri stöðu og þeim áhrifum sem löng bið getur haft, bæði á þá einstaklinga sem bíða og á áhrifum biðtímans á aðra þætti heilbrigðiskerfisins.

Í byrjun árs 2014 voru 226 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými, eða 6,1 á hverja 1.000 íbúa 67 ára og eldri. Í ársbyrjun 2018 voru einstaklingarnir orðnir 362, eða 8,6 á hverja 1.000 íbúa yfir 67 ára aldri. 29,2 af hverjum 1.000 íbúum sem eru 80 ára eða eldri voru hins vegar á biðlista í upphafi þessa árs og það hlutfall hefur hækkað þó nokkuð frá árinu 2014, en þá voru 19,1 af hverjum 1.000 íbúum 80 ára og eldri á biðlista eftir varanlegri búsetu í hjúkrúnarrými.

Biðtími hvers og eins einstaklings hefur einnig lengst, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs höfðu þeir 255 sem fengu hjúkrunarrými beðið að meðaltali í 126 daga. Á sama tímabili árið 2014 voru þeir 226 sem fengu úthlutun búnir að vera á biðlista í 74 daga að meðaltali. Biðtíminn er þannig sem áður segir um 70% lengri en hann var árið 2014.

Fjölgun á biðlista á landsvísu nemur 21% á undanförnum 15 mánuðum, en í janúar 2017 voru að meðaltali 303 á biðlista eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrými. Núna í mars síðastliðnum voru þeir 371 að meðaltali.

Ólíkur biðtími á milli heilbrigðisumdæma

Biðtími þeirra sem fluttust á hjúkrunarheimili á árinu 2017 var að meðaltali 113 dagar en var þó talsvert ólíkur á milli heilbrigðisumdæma. Bið þeirra sem fengu hjúkrunarrými á Norðurlandi var lengst, að meðaltali 184 dagar. Næst lengst var bið þeirra sem fengu hjúkrunarrými á Suðurnesjum, eða 151 dagur að meðaltali.

Stystur var biðtíminn á Vesturlandi eða 59 dagar að meðaltali. Á Austurlandi var meðalbiðtíminn næststystur, 74 dagar. Biðtíminn á höfuðborgarsvæðinu er 106 dagar að meðaltali.

Það sem af er árinu 2018 hafa 335 einstaklingar fengið varanlegt hjúkrunarrými. Að meðaltali höfðu þeir verið á biðlista í 127 daga áður en þeir fengu rými.

Tilkynning um samantekina á vef Embættis landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert