Líkin liggja enn á víðavangi

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar.
Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar. Ljósmynd/Brian Sweeny

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa fallið í Afrín-héraði í Sýrlandi, segir að enn hafi ekki fengist staðfest að Haukur sé látinn. Hún birtir ítarlega grein um stöðu málsins á heimasíðu sinni og bendir m.a. á að lík þeirra sem fallið hafa í Afrín liggi þar á víðavangi og birtir myndir af því máli sínu til stuðnings. Greinin er opið bréf til forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Eva segir myndirnar styðja frásögn heimamanna um ástandið á svæðinu. Þar sé engin hreinsun hafin og að í hlíðunum í kringum borgina „liggja líkin fyrir hunda og manna fótum“.

Eva segir því ekkert að marka þær fullyrðingar tyrkneskra stjórnvalda að þau hafi ekki lík Hauks undir höndum eða að hann sé í haldi þeirra. Bendir hún ennfremur á að það stangist á við fréttir tyrkneskra fjölmiðla sem héldu því fram í mars að lík Hauks yrði sent heim.

 „Við teljum meintar staðhæfingar tyrkneskra yfirvalda um að Haukur sé hvergi á skrá hjá þeim ekki neina sönnun þess að hann sé ekki í haldi Tyrkja, sem hafa verið harðlega gagnrýndir m.a. af Mannréttindadómstóli Evrópu, fyrir að láta fólk hverfa en ef Haukur er á annað borð látinn þá eiga aðstandendur hans heimtingu á því að líkið sé meðhöndlað í samræmi við alþjóðalög,“ segir m.a. í grein Evu. „Við höfum áður bent á að Tyrkir eru alræmdir fyrir þá ósvinnu að fleygja líkum andstæðinga sinna í fjöldagrafir án þess að gera nokkra tilraun til að bera kennsl á þau eða koma þeim í hendur ættingja. Það getur verið réttlætanleg neyðarráðstöfun að setja lík í fjöldagröf en það er ekki ásættanlegt að slík meðferð sé viðtekin venja. Nóg er um sannanir fyrir mun grófari meðferð Tyrkja á líkum og í sumum tilvikum engum vafa undirorpið að um hreina og klára stríðsglæpi er að ræða.“

Eva skrifar að vísbendingar séu um að tyrknesk stjórnvöld „meðhöndli lík þeirra sem hersveitir þeirra hafa drepið, þar með talið lík íslensks ríkisborgara (ef hann er þá látinn) sem hvert annað hundshræ, í trássi við alþjóðalög, hljóta að vekja athygli og hneykslan íslenskra stjórnvalda.“

Eva, faðir Hauks, unnusta og bróðir setja í lok bréfsins fram nokkrar spurningar sem þau óska svara við frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra:

  1. Ætlið þið enn að halda því fram að þið GETIÐ EKKI haft samband við tyrknesk stjórnvöld og spurt þau að minnsta kosti að því hvort þau hafi staðið við þá skyldu sína að hirða lík af svæðinu, og ef ekki, hversvegna þau telji sér stætt á því?
    .
  2. Hafið þið beitt ykkur gagnvart NATO, sem þið sem ríkisstjórn eruð hluti af, og krafist þess að bandalagið gangi hart að tyrkneskum yfirvöldum með kröfu um að þau sinni þeirri skyldu sinni að leita uppi öll lík á svæðinu og koma þeim til aðstandenda?  Ef svo er, með hvaða hætti?  Ef ekki, hvers vegna ekki?
    .
  3. Ef það er virkilega ætlun íslenskra stjórnvalda að krefja Tyrki ekki neinna svara um hugsanleg brot þeirra á alþjóðalögum í tengslum við mál Hauks Hilmarssonar – hvað þarf þá eiginlega til þess að ykkur finnist slík afskipti viðeigandi? Væri afstaða ykkar önnur ef faðir Hauks héti ekki Hilmar Bjarnason, heldur Bjarni Benediktsson eða ef móðir hans væri ekki pistlahöfundur heldur forsætisráðherra?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert