Ákærð fyrir fjársvik í opinberu starfi

Sjúkratryggingar Íslands
Sjúkratryggingar Íslands mbl.is/Hjörtur

Kona á fertugsaldri hefur verið ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir fjársvik með því að hafa, í opinberu starfi sínu sem starfsmaður hjá Sjúkratryggingum Íslands, blekkt starfsmenn í fjárvörslu stofnunarinnar til að greiða inn á reikninga sína af reikningi stofnunarinnar.

Í ákæru kemur fram að konan hafi látið leggja inn á reikninga sína samtals 1.925.267 krónur með 75 millifærslum sem voru gerðar á grundvelli jafnmargra tilhæfulausra reikninga sem konan færði í tölvukerfi stofnunarinnar.

Lét konan líta út fyrir að ættingjar og aðrir aðilar tengdir henni væru rétthafar endurgreiðslu á hinum tilhæfulausu reikningum.

Meint brot konunnar eru talin varða við 248. grein almennra hegningarlaga sbr. 138. grein sömu laga sem fjalla um fjársvik og brot í opinberu starfi.

Í 248. grein sem fjallar um fjársvik kemur meðal annars fram að ef maður fær annan mann til að hafast eitthvað með því á ólögmætan hátt vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga hugmynd hans um einhver atvik og hafa þannig af honum fé þá varði það allt að 6 ára fangelsi.

Í 138. grein segir að hafi opinber starfsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði sem telja verður misnotkun á stöðu hans, þá skuli hann sæta þeirri refsingu, sem við brotinu liggur, en þó aukinni svo bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

Héraðssaksóknari krefst þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.

Af hálfu Sjúkratrygginga Íslands er þess krafist að konunni verði gert að greiða skaðabætur sem nemi fjárhæðinni sem henni er ætlað að hafa svikið undan með vöxtum og málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert