Búseta og lögheimili ekki einfalt mál

Þjóðskrá tekur við tilkynningum um lögheimilisflutninga, en getur hafnað tilkynningum …
Þjóðskrá tekur við tilkynningum um lögheimilisflutninga, en getur hafnað tilkynningum telji hún þær ekki uppfylla skilyrði í lögum og/eða reglum. mbl.is/Sverrir

Þjóðskrá hefur komist að niðurstöðu í 15 af 18 tilkynningum um lögheimilisflutninga til Árneshrepps sem gerðar voru athugasemdir við. Úrskurðirnir hafa áhrif á kjörskrár en sveitarfélög reyna að tryggja að kjörskrár séu réttar með því að gera breytingar allt fram á kjördag. Dósent í stjórnsýslurétti segir reglur um lögheimili gera það að verkum að ekki sé klippt og skorið hvar einstaklingi ber að hafa skráð lögheimili.

Talsvert hefur verið fjallað um lögheimilisflutninga í kjölfar þess að það fréttist að óvenju margir höfðu flutt lögheimili sitt í Árneshrepp fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þjóðskrá Íslands úrskurðaði á dögunum að 13 af 18 lögheimilisskráningum til hreppsins voru ekki lögmætar, en ein var samþykkt. Til viðbótar var einni tilkynningu um breytt lögheimili dregin tilbaka.

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og staðgengill forstjóra Þjóðskrár, staðfestir við mbl.is að einn hafi farið fram á endurupptöku síns mál, en mbl.is flutti fréttir af því að Hrafn Jökulsson hefur krafist leiðréttingar á úrskurði Þjóðskrár.

Eftir úrskurð Þjóðskrár felldi hreppsnefnd 12 einstaklinga af kjörskrá í Árneshreppi. Mbl.is spurði í gær Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita Árneshrepps, um stöðu þeirra sem búa í hreppnum hluta að ári. Hún sagði eðlismun á þessum lögheimilisskráningum þar sem umræddir einstaklingar hefðu haft lögheimili sitt í hreppnum lengi og hefðu greitt sína skatta og skyldur til sveitarfélagsins.

Lögheimili atviksbundið


Almennt er talið að föst búseta sé forsenda lögheimilisskráningu, á því geta hinsvegar verið ýmis frávik. Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að erfitt sé að tjá sig um einstök mál þar sem Þjóðskrá metur hvar einstaklingur hefur fasta búsetu, en að föst búseta getur miðað við fleiri þætti.

Hann nefnir að föst búseta getur miðað við hvar maður hafi sína heimilismuni, hvar maður er utan vinnu og svo framvegis, en svo geta verið undantekningar eins og fyrir fólk sem er í skóla. Einnig eru reglur sem ná til sérstakra tilvika eins og til að mynda einstaklinga sem vegna starfsemi sinnar eru mikið á faraldsfæti, sjómenn og fleiri. „Það er svo margt sem getur komið til skoðunar,“ segir Trausti.

Samkvæmt Trausta getur einstaklingi verið skylt að tilkynna lögheimilisflutninga oft, ef svo ber við. Í öðrum tilvikum getur tilfellið verið annað, til að mynda ef fjölskylda einstaklings er búsett á einum stað og viðkomandi dvelur annarstaðar vegna vinnu eða námi. Hann segir málið flóknara en við fyrstu sýn, „þetta getur verið mjög atviksbundið í hverju tilviki fyrir sig.“

Kjörskrá getur tekið breytingum á kjördag

Þeir 12 einstaklingar sem voru á kjörskrá Árneshrepps og voru felldir af kjörskrá hreppsins, eftir tilkynningu um úrskurð Þjóðskrár, eiga nú kosningarétt í þeim sveitarfélögum þar sem lögheimili þeirra er skráð samkvæmt þjóðskrá.

Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins, segir við mbl.is, að kjörskrá í sveitarfélagi geti tekið breytingum allt fram á kjördag. Þar með má gera ráð fyrir því að kosningaréttur þeirra sem þurfti að flytja lögheimili sín frá Árneshreppi sé varinn.

Í þessu samhengi hefur Reykjavíkurborg staðfest við mbl.is að borgarráð mun hittast á morgun til þess að lagfæra kjörskrá og líklega mun borgarráð einnig hittast á kjördag til þess að tryggja að kjörskrá sé rétt.

Möguleg kosningaspjöll

Í umfjöllun mbl.is um lögheimilisflutninga til Árneshrepps hefur komið frama að þær gætu varðað við ákvæði um kosningaspjöll í lögum um kosningar til sveitarstjórna. Oddviti Árneshrepps, sagði við mbl.is í gær að hvorki hún né hreppsnefnd mun hafa frumkvæði að því að kæra lögheimilisflutningana.

Bryndís segir að hver sem er geti óskað eftir að lögreglan rannsaki hvort um brot á refsiákvæðum kosningalaga sé að ræða, sé grunur um að slík brot hafi átt sér stað.

Dómsmálaráðuneytið hefur ekki tekið neina afstöðu til þess hvort sé ástæða til að tilkynna lögheimilisflutningana til lögreglu, að sögn Bryndísar. Hún bendir á að kæra má kosningu til sveitarstjórnar til sýslumanns innan viku frá því að kosningaúrslit eru kunn. Sýslumaður skipar þá þriggja manna nefnd sem tekur ákvörðun í slíku kærumáli. Niðurstöðu nefndarinnar má kæra til ráðuneytisins sem tekur endanlega ákvörðun um gildi kosningarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert