„Tvö skref áfram og eitt aftur á bak“

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Árni Sæberg

Samninganefndir ríkisins og ljósmæðra komu saman á óformlegum vinnufundi í dag. Fundurinn stóð í tæpa fjóra klukkutíma og lauk með þeirri niðurstöðu að formlegum fundi hjá ríkissáttasemjara sem átti að fara fram á föstudag hefur verið frestað fram á þriðjudag.

„Það er ekki grundvöllur fyrir formlegum fundi þar sem við höfum ekki náð að nálgast meira en raun ber vitni,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is.

Hún segir að enn sé langt til lands í samningaviðræðunum þrátt fyrir að viðræðurnar hafi mjakast í rétta átt á síðustu vikum. „Það er hægur gangur á þessu, tvö skref áfram og eitt aftur á bak,“ segir Katrín.

Þá telur hún að lausnamiðaðar samræður séu forsenda fyrir árangursríkum viðræðum. „Þær verða að halda áfram og eru hefðu átt að koma miklu fyrr. En þær eru í gangi. Það þarf að halda vel á spilunum og klára þetta.“

Katrín segir að samninganefndirnar muni hittast á óformlegum vinnufundi áður en formlegur fundur fer fram á þriðjudag. „En fyrst þurfum við að vinna hvor í sínum herbúðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert