Fylgismenn virkjunar í öll sæti hreppsnefndar

Kjörstjórn telur atkvæði upp úr potti. Fimmtán manns voru viðstaddir …
Kjörstjórn telur atkvæði upp úr potti. Fimmtán manns voru viðstaddir talningu atkvæða í félagsheimilinu í Trékyllisvik. mbl.is/Sunna

Það mátti heyra saumnál detta á meðan kjörstjórn í Árneshreppi taldi atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum í vitna viðurvist í félagsheimilinu í Trékyllisvík í kvöld. Þrír sitja í kjörstjórn og voru nöfn sem kjósendur höfðu ritað á kjörseðla sína lesin upphátt. Fimmtán manns voru viðstaddir talninguna, m.a. Eva Sigurbjörnsdóttir núverandi oddviti.  Atkvæði féllu þannig að  Guðlaugur Ágústsson, Bjarnheiður Fossdal og Arinbjörn Bernharðsson fengu 24 atkvæði til aðalmanns  hvert og Eva Sigurbjörnsdóttir og Björn Torfason fengu 23 atkvæði hvort. Aðrir fengu færri. Munu þau fimm því skipa hreppsnefnd Árneshrepps á komandi kjörtímabili. Varamenn verða: Úlfar Eyjólfsson, Magnús Karl Pétursson, Sigurstein Sveinbjörnsson, Elín Agla Briem og Sigrún Ósk Ingólfsdóttir.

Allir í kjöri

Í Árneshreppi eru óbundnar kosningar sem þýðir að allir kjósendur í sveitarfélaginu eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.

Á kjörseðlinum eru því engir listabókstafir. Hann er tvískiptur og skrifa kjósendur á efri hluta hans nöfn þeirra sem þeir kjósa sem aðalmenn og á neðri hlutann rita þeir nöfn varamanna. Fimm aðalmenn eru í hreppsnefnd Árneshrepps og jafnmargir varamenn.

46 voru á kjörskrá; 24 konur og 22 karlar. Kosningaþátttaka var með besta móti, 43 kusu eða 93,48%.

Tvær fylkingar

Ákveðin lína var lögð þegar við upphaf talningar í kvöld. Þó að um óbundnar kosningar, nokkurs konar persónukjör, sé að ræða voru fylkingarnar tvær sem orðið hafa til í hreppnum með tilkomu hugmynda um Hvalárvirkjun augljósar. Mikill samhljómur var í vali fólks eftir því hvort það er með eða á móti virkjun.

Þannig kusu stuðningsmenn virkjunarinnar þau Arinbjörn Bernharðsson, Guðlaug Ágústsson, Bjarnheiði Fossdal, Björn Torfason og Evu Sigurbjörnsdóttur sem aðalmenn. Guðlaugur, Bjarnheiður og Eva sátu öll í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili og eru hlynnt virkjuninni.

Andstæðingar virkjunar kusu hins vegar Ólaf Valsson, Elínu Öglu Briem, Valgeir Benediktsson, Jóhönnu Ósk Kristjánsdóttur og Vigdísi Grímsdóttur. Einnig voru nöfn Sifjar Konráðsdóttur og Hrafns Jökulssonar á kjörseðlum andstæðinga virkjunarinnar.

 Hrefna Þorvaldsdóttir og Ingólfur Benediktsson sem sátu í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili og voru yfirlýstir andstæðingar virkjunar báðust undan kjöri í kosningunum nú.

Atkvæði dregin úr potti

Stemningin var vægast sagt rafmögnuð á meðan talning fór fram í litla félagsheimilinu sem kúrir í fjallasalnum umhverfis Trékyllisvík. Allir sem komnir voru til að fylgjast með sátu grafkyrrir og hljóðir á meðan nöfnin á kjörseðlunum voru lesin.

Kjörseðlar voru lagðir í stóran stálpott á langborðinu sem kjörstjórnin sat við.

„Nú er potturinn tómur og nú leggið þið saman,“ sagði Ingólfur Benediktsson, formaður kjörstjórnar, er atkvæði aðalmanna höfðu verið talin og beindi orðum sínum til talningarmannanna. Hófst svo lestur á nöfnum þeirra fimm sem flest atkvæði höfðu hlotið.  Í kjölfarið yfirgáfu margir félagsheimilið.

Nú tekur ný hreppsnefnd við því verkefni að ákveða framhald fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Hluti skipulagstillagna vegna hennar hafa verið samþykktar en Skipulagsstofnun á enn eftir að afgreiða þær og hefur óskað eftir gögnum frá hreppsnefnd um ákveðin atriði er skipulagsgerðinni tengjast. Enn á svo eftir að gera frekari breytingar á aðalskipulagi vegna virkjunarinnar og þá er það einnig í höndum hreppsnefndar að afgreiða framkvæmdaleyfi vegna hennar þegar þar að kemur.

 Virkjunarhugmyndin hefur sannarlega klofið hið fámenna samfélag á Ströndum í tvennt í afstöðu sinni. Eitt fyrsta verkefni hinnar nýju hreppsnefndar verður að kjósa sér oddvita. Það mun gerast um miðjan júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert