Flugvél brotlenti í Kinnarfjöllum

Vélin hrapaði í Kinnafjöllum við Skjálfanda.
Vélin hrapaði í Kinnafjöllum við Skjálfanda. Kort/mbl.is

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út nú rétt fyrir tíu í kvöld eftir að flugvél brotlenti í Kinnarfjöllum við Skjálfanda, austan Eyjafjarðar. Þetta staðfesti Landhelgisgæslan í samtali við mbl.is.

Tveir eru sagðir hafa verið um borð í flugvélinni og benda fyrstu fréttir til að fólkið sé óhult.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir búið að manna samhæfingarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu og þá hefur aðgerðastjórn verið sett upp á Akureyri og Húsavík Búið er að ræsa út flestar björgunarsveitir á svæðinu og um 10 hópar björgunarsveitarmanna eru lagðir af stað á slysstað.

Einnig segir Davíð björgunarsveitarfólk á eigin vegum vera á vélsleðum í nágrenninu og ætli það að freista þess að komast á slysstað.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir þyrluna hafa lagt af stað klukkan 21.45 og að hún verði lent um ellefuleytið fyrir norðan.

„Upphaflega kom boð í gegnum gervihnatta neyðarkerfi til Gæslunnar um níuleytið í kvöld og í kjölfarið var haft samband við flugturninn á Akureyri sem náði sambandi við flugmanninn sem sagði að vélin hefði brotlent,“ segir Ásgeir. Þá hafi flugmaðurinn sagt að þeir væru tveir í vélinni og báðir óslasaðir.

Aðstæður á slysstað eru þá sagðar vera góðar og fólkið óhult, en að því sé kalt.

22.50: Tveir sleðamenn frá björgunarsveitinni á Mývatni eru komnir á vettvang, en áður var búið að kasta tjaldi og svefnpokum úr flugvél til mannanna. Segir Davíð Már  björgunarsveitarmennina nú hlúa að mönnunum, sem hafi það þokkalegt miðað við aðstæður. Þeir bíða síðan með þeim eftir að frekari bjargir berist. „Það var heppilegt að þeir voru þarna í grendinni og gátu komist til þeirra,“ segir hann. 

23:18 Þyrlan kom á slysstað um rétt fyrir ellefu lenti síðan við á Sjúkrahúsið á Akureyri með fólkið klukkan 23.11.

Lögreglan á Norðurlandi mun fara með rannsókn á slysinu, en að sögn Ásgeirs fór einn úr Rannsóknarnefnd samgönguslysa með Landhelgisgæslunni á slysstað. Þá eru rannsóknarlögreglumenn frá Akureyri og menn frá Rannsóknarnefnd flugslysa byrjaðir að undirbúa vettvangsrannsókn að því er fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert