Fari í viðræður sem ein heild

Aðalsteinn Árni Baldursson
Aðalsteinn Árni Baldursson mbl.is/Sigurður Bogi

Umræður fóru fram um skipulag aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands í aðdraganda kjarasamninga á tveggja daga formannafundi sem lauk í gær. Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, hvatti þar til þess í ræðu að öll félögin næðu samkomulagi um að fara saman sem ein heild í kjaraviðræðurnar næsta vetur og gæta þyrfti þess að koma ekki sundruð að samningaborðinu. Á umliðnum árum hafa landsbyggðarfélögin staðið saman í kjaraviðræðum en Flóafélögin samið sér. Þessu var vel tekið að sögn Aðalsteins, sem kveðst vona að nú verði kúvending á og öll félögin standi saman í viðræðunum eftir að kröfugerð hefur verið mótuð.

Aðalsteinn segir að á fundinum hafi menn verið að stilla saman strengi og ræða undirbúning sem kominn er í fullan gang hjá hverju félagi fyrir sig við mótun kröfugerðar fyrir komandi kjaraviðræður.

Aðalstein segir að erindi sem Stefán Ólafsson prófessor flutti á fyrri degi formannafundarins um þróun launa, hafi vakið mikla athygli og þar hafi Stefán staðfest í einu og öllu gagnrýni verkalýðsfélaga og forystu þeirra á auglýsingaherferð ASÍ, hún væri skjön við söguna og staðreyndir um launaþróun verkafólks. Aðalsteinn segir að einnig hafi komið fram á fundinum að ekki hafi verið samstaða um það innan miðstjórnar ASÍ á sínum tíma að birta hinar umdeildu auglýsingar heldur verið um það skiptar skoðanir.

Að sögn Aðalsteins er í bígerð að hann og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fari fljótlega á fund seðlabankastjóra til að fara yfir stöðu mála að ósk seðlabankastjóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert