Fall er vonandi fararheill

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Ragnar Sigurðsson við litfjörugt listaverk …
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Ragnar Sigurðsson við litfjörugt listaverk Errós í Leifsstöð í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gelendzhik við Svartahaf, heimabær íslenska landsliðsins í knattspyrnu meðan á HM stendur, tók vel á móti hópnum þegar Herðubreið, þota Icelandair, kom honum á áfangastað í Rússlandi. Klukkan hafði þá nýslegið átta að staðartíma en var reyndar enn ekki nema rúmlega fimm heima á Íslandi.

Tekið var að rökkva eftir sólríkan og mjög heitan dag og góðu veðri er spáð í fyrramálið, þegar fyrsta æfing landsliðsins á rússnesku grundu fer fram. Æfingin verður opin og von á hátt í eitt þúsund knattspyrnuáhugamönnum til að horfa á, spjalla við leikmennina og fá hjá þeim eiginhandaráritanir. Eftir léttan fyrsta dag tekur alvaran svo við á mánudaginn og æfingar þaðan í frá lokaðar öllum nema fuglinum fljúgandi að vanda, nema hvað fjölmiðlamönnnum er leyft að fylgjast með því sem fram fer fyrsta stundarfjórðunginn eða þar um bil hverju sinni. Þá rýfur stórskotahríð ljósmyndara alla jafna þögnina en allt er á rólegu nótunum að öðru leyti.

Flugið frá velli Leifs heppna suður að Svartahafi gekk eins og í sögu, þó ekki væri hægt að fljúga stystu leið. Flogið var beina leið austur af landinu, þvert yfir Noreg, Stokkhólmur var sagður undir vélinni um tíma og sömu sögu má segja um Riga í Lettlandi, þaðan lá leiðin yfir Hvíta Rússland og loks inn í Rússland. Taka varð nokkuð stóran sveig í austur, sem lengdi flugið um hálftíma eða svo, til þess að fara ekki inn í úkraínska lofthelgi. Það svæði er einfaldlega ekki talið öruggt. Stefnan var tekin til suðurs um leið og ráðlegt þótti og lá leiðin þá milli borganna Rostov og Volgograd, þar sem tveir seinni leikir Íslands fara einmitt fram.

Komið var á áfangastað í kvöldsólinni, heldur seinna en upphaflega var gert ráð fyrir vegna smávægilegra mistaka heima á Íslandi. Engu að síður var flugferðin sjálf nærri 45 mínútum styttri en ráðgert var. Sú saga fór á kreik í Leifsstöð að „einhverja pappíra“ vantaði og ekki yrði hægt að fara í loftið fyrr en þeir væru komnir í hendur starfsmanna KSÍ.

Einhver sagði: Fall er fararheill!

Skiptir ekki máli, sagði annar. Herðubreið fer ekki í loftið á undan landsliðinu.

„Pappírarnir“ reyndust ferðataska Heimis Hallgrímssonar landsliðsþjálfara. Landsliðshópurinn snæddi morgunverð  með fjölskyldum sínum á hóteli í Reykjavík í morgun og Heimi varð á að setja tösku sína á rangan stað þannig að þegar KSÍ hópurinn ók á brott í suðurátt var taskan á leið upp á Akranes! Mistökin komu sem betur fer í ljós áður en í óefni var komið og Heimir hló mest sjálfur að öllu saman. Engum varð meint af ...

Hópur rússneskra fjölmiðlamanna beið íslenska liðsins á flugvellinum, Aron fyrirliði, Heimir þjálfari og Guðni formaður fóru í stutt viðtöl, eldsnögg var stytt var upp í hópmyndatöku framan við vélina og síðan var haldið á braut í fallega og rækilegri merkti Íslands á HM-rútu.

Fall er vonandi fararheill!

Keilan góða, sem var á hópmyndinni á Keflavíkurflugvelli í morgun, …
Keilan góða, sem var á hópmyndinni á Keflavíkurflugvelli í morgun, var með í för til Rússlands. Víðir Reynisson, öryggisstjóri KSÍ, og hin fánalita keila í mörg þusund feta hæð í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Landsliðshópurinn fyrir brottför í morgun.
Landsliðshópurinn fyrir brottför í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Landsliðshópurinn og áhöfn Herðubreiðar á flugvellinum í Gelendzhik í kvöld.
Landsliðshópurinn og áhöfn Herðubreiðar á flugvellinum í Gelendzhik í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, Guðni Bergsson formaður KSÍ, Magnús Gylfason, …
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, Guðni Bergsson formaður KSÍ, Magnús Gylfason, formaður landsliðsnefndar og Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert