Nýr hemlaprófari tekinn í notkun

Attachment: "Hemlunarprófun á Kjalarnesi" nr. 10718


Hemlunarbúnaður er einn mikilvægasti öryggisþáttur hvers ökutækis og um leið viðhaldsþáttur sem ekki má vanrækja. Þetta segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, en í dag tóku þrjú lögregluembætti í notkun hemlunarprófara sem nýttur verður til eftirlits með meiri fagmennsku.

Lögregla sýnir hvernig hemlaprófarinn virkar. Lögregluþjónar stýra tækinu í gegnum …
Lögregla sýnir hvernig hemlaprófarinn virkar. Lögregluþjónar stýra tækinu í gegnum smáforrit í síma sínum. mbl.is/Arnþór

Lögregluembættin á Vesturlandi, Norðurlandi eystra og Suðurlandi stóðu saman að kaupunum ásamt dómsmálaráðuneytinu og kostaði hemlunarprófarinn 12 milljónir króna. Átta lögregluþjónar fóru nýlega til Danmerkur á námskeið í notkun búnaðarins en Halla segir að með reglulegri skoðun ökutækja megi stuðla að auknu umferðaröryggi með því að tryggja að ökutæki sé í lögmæltu ástandi til þess að hætta af notkun þess verði sem minnst.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. mbl.is/Arnþór

„Í eftirliti felst m.a. sjónskoðun á ástandi ökutækis í kyrrstöðu, könnun á nýlegu vegaskoðunarvottorði eða skoðunarvottorði frá síðustu skoðun ökutækisins á skoðunarstöð og skoðun hvort um vanbúið ökutæki sé að ræða. Í síðastnefnda atriðinu felst að m.a. skoðun á hemlabúnaði,“ segir Halla. 

„Miðað við núgildandi reglur fer reglubundin skoðun ökutækja fram einu sinni á ári og gilda sömu reglur um tíðni skoðana hvort sem um er að ræða stærri ökutæki sem notuð eru í atvinnurekstri eða fólksbifreiðar í einkaeigu,“ segir Halla.

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjórinn á Suðurlandi (t.v.), og Halla Bergþóra Björnsdóttir, …
Kjartan Þorkelsson, lögreglustjórinn á Suðurlandi (t.v.), og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (t.h.). Í miðjunni er Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem leit við til að kynna sér nýjan búnað kollega sinna. mbl.is/Arnþór

„Umtalsverður munur getur verið að því hversu mikið þessi ökutæki eru ekin á ári hverju, stærri ökutæki, hópferðabifreiðar, vörubifreiðar og eftirvagnar sem og aðrar bifreiðar sem notaðar eru í atvinnuskyni eru oft og tíðum eknar um og yfir 100 þúsund kílómetra á einu ári á meðan fólksbifreiðar í einkaeigu eru eknar um 15 þúsund kílómetra á ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert