Ríkisborgari og nú frjáls ferða sinna

Kinan Kadoni fékk íslenskan ríkisborgararétt í gær.
Kinan Kadoni fékk íslenskan ríkisborgararétt í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef það mjög gott, þetta er mjög sérstakur dagur,“ segir Kinan Kadoni sem hlaut íslenskan ríkisborgararétt í gærkvöldi. Kinan er frá Sýrlandi en hefur verið á Íslandi meira og minna síðastliðið ár. Hann sótti um ríkisborgararétt á síðasta ári en var hafnað en sótti aftur um nú í mars.

Kinan segir ríkisborgararéttinn eiga eftir að breyta miklu fyrir sig, en undanfarin ár hefur hann meðal annars unnið sem túlkur fyrir samtök á borð við Lækna án landamæra. Hann ferðaðist því um með sýrlenskt vegabréf sem gerði honum erfitt um vik, auk þess sem hann var með landvistarleyfi í Belgíu og mátti ekki vera lengur utan Belgíu en þrjá mánuði í senn. „Ég þurfti alltaf að yfirgefa störf mín og ferðast aftur til Belgíu til þess að missa ekki réttindi mín.“

„Svo fékk ég ekki starfið aftur því það þurfti að ráða annan þegar ég fór. Þetta hafði mjög hamlandi áhrif og ég missti af mörgum tækifærum með þessum samtökum, en ég starfaði hjá slíkum samtökum í fjögur eða fimm ár.“

Kinan segir að nú verði hann frjáls ferða sinna. Þá er hann einnig ánægður að geta nú ferðast til Tyrklands og Dubai þar sem hann á ættingja sem hann hefur ekki séð árum saman. „Ég gat ekki fengið Visa á sýrlenska vegabréfið. Nú þarf ég ekki einu sinni Visa, ég get bara bókað flug og farið. Þetta gefur mér frelsi og vængi.“

Kinan hyggst þó ekki nýta sér vængina alveg á næstunni, en undanfarið hefur hann starfað hér á landi. Hann hefur til dæmis sinnt starfi stuðningsfulltrúa í skóla, auk þess sem hann túlkaði fyrir flóttamenn sem settust að á Vestfjörðum nú í vor. Í næstu viku hefur hann svo störf hjá Reykjavíkurborg í tengslum við móttöku flóttamanna. Kinan og Þórunni Ólafsdóttur, sem kynntust fyrir nokkrum árum í sjálfboðastarfi í Grikklandi, dreymir um að opna miðstöð fyrir innflytjendur, flóttamenn, hælisleitendur og heimamenn.

Þau unnu lengi saman við hjálparstörf og Kinan útskýrir hvernig Þórunn komst alltaf auðveldlega í gegn allsstaðar þar sem hún fór, á meðan fólk áætlaði að hann væri ólöglegur eða smyglari og var stoppaður í öryggisleit. „Nú getum við ferðast hvert sem við viljum og gert allt það sem okkur langar að gera án þessara takmarkana.“

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Kinan var hann á leið á Bessastaði að hitta Guðna Th. Jóhannesson forseta í tengslum við Listahátíð Reykjavíkur, en Kanin tekur þátt í undirbúningi arabískrar matarveislu á Aalto Bistro laugardaginn 16. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert