Segja 2 ár nauman aðlögunartíma

Reykjavíkurborg mun ekki takast að klára innleiðingu nýrra verkferla fyrir …
Reykjavíkurborg mun ekki takast að klára innleiðingu nýrra verkferla fyrir gildistöku nýrra laga um persónuvernd. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg mun ekki geta uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga í nýjum persónuverndarlögum innan gildistöku lagana 15. júlí næstkomandi, segir Dagbjört Hákonardóttir, verkefnastjóri stjórnsýslumála Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Ný persónuverndarlög voru samþykkt á Alþingi seint í gærkvöldi og hafa einhverjir aðilar verið ósaáttir við þann tíma sem gefinn hefur verið til þess að breyta verkferlum áður en lögin öðlast gildi. Þó hefur legið fyrir að til stóð að innleiða nýja löggjöf um persónuvernd á grundvelli EES-samningsins frá 2016.

Dagbjört segir umfang verkefnisins sé það stórt að ekki verður komist hjá því að Reykjavíkurborg verður ekki búin að innleiða nýja verkferla að fullu fyrir gildistöku nýrra persónuverndarlaga. Hún bendir á að níu þúsund manns starfa hjá borginni og borgin þjónustar alla borgarbúa og býr því yfir viðkvæmar upplýsingum um alla þessa aðila.

Þessi upplýsingaöflun er ekki vegna ásetnings Reykjavíkurborgar heldur vegna þeirra lögbundinna skyldna sem lagt er á sveitarfélagið, að sögn Dagbjartar. Hún vekur athygli á að undirbúningsvinna vegna breytinganna hafi farið af stað haustið 2017 og að sveitarfélagið mun þurfa leiðsögn Persónuverndar vegna umfangs innleiðingarinnar.

Verkefnastýran gerir athugasemd við að lögin gerir ráð fyrir mjög háum fjársektum og þær geta varðað óhappabrot og þar sem ekki er gerð krafa um ásetning.

Alvarlegar athugasemdir

Samband íslenskra sveitarfélaga birti á vefsíðu sinni í dag yfirlýsingu vegna ný samþykktra persónuverndarlaga þar sem athugasemdir sambandsins eru raktar. Þar segir meðal annars að gagnrýni sambandsins hafi verið vegna skort á samráði um efni frumvarpsins, óhófleg sektarákvæði, mikinn innleiðingarkostnað hjá sveitarfélögum og afar nauman aðlögunartíma.

Þá segir að vart verði séð hvernig sveitarfélög geti náð að undirbúa sig í tæka tíð og eru sveitarfélög hvött til þess að kappkosta við að ráða til sín persónuverndarfulltrúa eins og lögin kveða á um. Dagbjört segir Reykjavíkurborg ekki hafa ráðið slíkan starfsmann á þessu stigi, en að starfi sé starfshópur vegna innleiðingar persónuverndarlöggjafarinnar.

Samstarfsverkefni er nú í gangi milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar vegna innleiðingu löggjafarinnar í grunnskólum, leikskólum og frístundastarfi. Sambandið segir á heimasíðu að verkefnið verði fyrirmynd að innleiðingu annarra sveitarfélaga og er verkefnið styrkt af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Vitað af málinu frá 2016

Persónuverndarlögin byggja á reglum Evrópusambandsins um persónuvernd, þekkt sem GDPR. GDPR var samþykkt í apríl 2016 en kom til framkvæmda í Evrópu 25. maí síðastliðinn, en staðið hefur til í lengri tíma að GDPR yrði innleitt í aðildarríkjum evrópska efnahagssvæðisins.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við mbl.is að nokkur fyrirtæki og opinberar stofnanir hófu undirbúning að innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar vorið 2016 í kjölfar þess að GDPR varð samþykkt í Evrópu. „Það hafa bara margir farið af stað og eru nú þegar tilbúnir,“ segir hún.

Öflugt kynningarstarf Persónuverndar vegna nýrrar löggjafar hófst haustið 2016 að sögn Helgu. Hún bendir á að rúmlega 300 manns mættu á kynningarfund stofnunarinnar um málið og að tugir fyrirlestra hafa verið haldnir fyrir ríki, sveitarfélög, opinberar stofnanir og fyrirtæki frá því að kynningarstarf Persónuverndar fór af stað, þar fyrir utan hafi verið gefið út mikið magn kynningarefnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert