Borgarísjakinn orðinn sýnilegur frá landi

Borgarísjakinn myndarlegi. Ljósmyndari mbl.is náði mynd af honum er hann …
Borgarísjakinn myndarlegi. Ljósmyndari mbl.is náði mynd af honum er hann var á ferð með Landhelgisgæslunni í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarísjakinn sem stefndi inn í Húnaflóa í vikubyrjun er nú farinn að sjást frá veðurathugunarstöðinni Litlu-Ávík á Ströndum. Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að í þeim norðaustan- og norðanáttum sem verði næstu daga megi gera ráð fyrir að borgarísjakinn mjakist til vesturs. „Hann gæti því alveg náð landi á Hornströndum,“ segir hún. Þeir sem eru á ferð á Hornströndum næstu daga ættu því að fylgjast vel með.

Hafísspöngin, sem hefur undanfarna daga verið rétt norður af Hornströndum, er hins vegar tekin að leysast upp. Í gær var hún um 12 sjómílur frá Horni, eftir að hafa verið 2,5 mílur frá Horni í vikubyrjun. „Svo virðist sem hún sé farin að eyðast, en það má þó búast við að einhverjir jakar séu enn til staðar og þá ber að varast,“ segir Helga.

Hafísinn ber við sjóndeildarhringinn undir örinni. Myndin er frá veðurathugunarstöðinni …
Hafísinn ber við sjóndeildarhringinn undir örinni. Myndin er frá veðurathugunarstöðinni Litlu-Ávík. Ljósmynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Gervihnattamyndir af hafísspönginni og borgarísnum voru birtar á Facebook-síðu eldfjallafræði- og náttúrvárhóps Háskóla Íslands.

Borgarísjakinn er öllu þéttari í sér og var hann vel sýnilegur frá landi í Litlu-Ávík í gær, en einungis einn tíundi hluti hans er þó sýnilegur.

Helga segir hafísinn nú ekki vera óvenjulegan miðað við árstíma. „Það hefur verið frekar lítið um hann undanfarið, en ég man þó vel eftir stórum hafísjaka á höfninni á Hólmavík sem við vorum búin að draga inn,“ segir hún og hvetur fólk til að sýna varkárni í námunda við hafís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert