Íbúar hvattir til að sýna túristum vinsemd

Ocean Diamond við bryggju í Þorlákshöfn í dag.
Ocean Diamond við bryggju í Þorlákshöfn í dag. Ljósmynd/Hafnarfréttir

Skemmtiferðaskipið Ocean Diamond lagðist að bryggju í Þorlákshöfn í dag og var það í fyrsta sinn sem skemmtiferðaskip sækir bæinn heim, en sveitarfélagið Ölfus hefur lagt mikla áherslu á að fá slík skip til hafnar.

Sveitarfélagið birti tilkynningu á vef sínum í gær þar sem íbúar í Þorlákshöfn voru beðnir um að sýna farþegum skipsins vinskap og jafnvel spjalla við þá, því mikilvægt væri að farþegarnir upplifðu að þeir væru velkomnir. Auk þess voru íbúar hvattir til að kíkja niður á höfn og taka vel á móti gestunum, er skipið lagði að kl. 11:30 í morgun.

Um 200 farþegar eru um borð í Ocean Diamond auk um hundrað manna áhafnar. Flestir farþeganna fóru strax upp í rútu í skipulagðar dagsferðir út fyrir bæinn.

Sem áður segir hafa bæjaryfirvöld í Ölfusi unnið að því að fá skemmtiferðaskip til að leggja að í Þorlákshöfn, en höfnin í bænum hefur á síðustu árum verið endurbætt og gerð aðgengileg fyrir stærri skip.

Þó var ekki útlit fyrir að skemmtiferðaskip myndi sækja bæinn heim í sumar, þar sem annað skip hafði áður afboðað komu sína, en ákveðið var að sigla Ocean Diamond til Þorlákshafnar með skömmum fyrirvara vegna breyttrar ferðaáætlunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert