„Konan stoppaði mig svolítið af“

Fjölskyldan styður Ísland.
Fjölskyldan styður Ísland. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fer með konunni minni á leikinn en hún er rússnesk,“ segir tónlistarmaðurinn Svavar Elliði Svavarsson í samtali við mbl.is. Þau lentu í Moskvu í fyrradag og sagði Svavar að það væri greinilegt að stærsti íþróttaviðburður ársins væri í þann mund að hefjast.

„Það var allt morandi í stuðningsmönnum á flugvellinum, allra þjóða kvikindi. Heimsmeistaramótið er greinilega rétt handan við hornið og þetta er risastórt,“ segir Svavar en hann fer „bara“ á leik Íslands gegn Argentínu.

Hefði viljað fara á alla leikina

„Ég hefði satt að segja viljað fara á alla leikina en konan mín stoppaði mig svolítið af. Það er náttúrulega dýrt að ferðast um allt. Hún bókaði reyndar alla þessa ferð og ég þurfti ekki að gera neitt,“ segir Svavar. Hann og eiginkona hans, Anastasia, og tvær dætur hennar, hófu ferðalagið í Riga áður en haldið var til Moskvu.

Messi hvílir lúin bein á æfingu argentínska landsliðsins í dag. …
Messi hvílir lúin bein á æfingu argentínska landsliðsins í dag. Hann er eflaust að hugsa með sér hvernig eigi að komast í gegnum íslensku vörnina á laugardag. AFP

Auk þess mun bróðir Svavars koma út í Moskvu og einhverjir félagar hans. Hann segir að það sé enginn rígur á heimilinu fyrir mótið; Anastasia ætlar ekki að fara á leiki hjá Rússlandi. „Hún heldur með Íslandi,“ segir Svavar.

Hann ætlar að njóta lífsins í Moskvu fyrir leik á laugardag, horfa á aðra HM-leiki á börum og sýna vinum sínum borgina. „Síðan ætla ég líka í klippingu en það kostar ekki neitt að láta klippa sig hérna,“ segir Svavar og hlær.

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu þegar Svavar, Anastasia og stelpurnar komu til Moskvu í gær. Hann segir að veðrið sé betra í dag, sólin er farin að skína og hitinn nálgast 20 gráður. „Það var rosaleg hitabylgja í Rússlandi í síðasta mánuði en það hefur kólnað í júní. Kannski er bara fínt að það sé ekki of heitt af því að við erum vön kulda og rigningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert