Prentsmiðja Landsprents ein sú besta

Landsprent ehf., prentsmiðja Morgunblaðsins, hlaut á dögunum útnefningu í hóp bestu blaðaprentsmiðja heimsins, International Color Quality Club. Keppnin er skipulögð af WAN-IFRA, alþjóðlegum samtökum blaðaútgefenda.

Er þetta í tólfta sinn sem samkeppnin er haldin, en þetta mun vera eina alþjóðlega keppnin af þessu tagi.

Keppnin fór þannig fram að í þrjá mánuði fyrr á árinu birtist lítill mælikubbur í Morgunblaðinu, ásamt öðrum blöðum víðs vegar um heim sem tóku þátt í keppninni, og var hann notaður til að mæla og bera saman prentgæði. Eftir hvert tímabil kölluðu skipuleggjendur keppninnar eftir tilteknum tölublöðum af handahófi sem voru síðan notuð til að mæla og meta. Þetta var gert til þess að tryggja að verið sé að mæla blöð úr venjulegri framleiðslu, en ekki sérstaklega prentuð fyrir keppnina. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að prentgæðin séu stöðug og eins alla daga og að auglýsendur og lesendur geti treyst því að gæði prentunarinnar séu stöðug og ætíð eins og best verður á kosið.

Allir þurfa að vera samtaka

Að sögn Guðbrands Magnússonar, prentsmiðjustjóra Landsprents, er ekki hlaupið að því að vinna verðlaun af þessu tagi. „Til að ná árangri er mikilvægt að allir sem koma við sögu í þessu ferli séu samtaka og tileinki sér vitund um gæði og vönduð vinnubrögð, bæði við prentunina sjálfa og einnig í ljósmyndavinnslu og auglýsingagerð. Sem betur fer vinnur hér reynslumikill og samstilltur hópur góðra fagmanna og svo búum við einnig svo vel að hafa yfir að ráða fullkominni prentvél og öðrum tæknibúnaði af bestu gerð í toppstandi. Allt þetta stuðlaði að því að okkur tókst að ná markmiðum okkar í keppninni,“ sagði Guðbrandur.

Hjá Landsprenti eru prentuð fjölmörg blöð auk Morgunblaðsins. Má þar nefna DV, Viðskiptablaðið, Stundina, Bændablaðið, Skessuhorn, Víkurfréttir, Elkó blaðið, Eyjafréttir, Fiskifréttir, Vesturbæjarblaðið, Breiðholtsblaðið, Kópavogsblaðið, Árbæjarblaðið og Grafarvogsblaðið, Mosfelling og Grapevine.

„Mikilvægast fyrir okkur með því að ná þessum árangri í keppninni er að þannig getum við sýnt öllum þessum viðskiptavinum okkar að okkur sé treystandi til að prenta auglýsingar og blöð þeirra af vandvirkni og af þeim gæðum sem til er ætlast,“ sagði Guðbrandur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert