Ofurölvi velti í Ártúnsbrekku

mbl.is/Eggert

Ökumaður bifreiðarinnar sem valt í Ártúnsbrekku upp úr klukkan 22 í gærkvöldi var ofurölvi og er hann vistaður í fangageymslu lögreglunnar eftir að rannsókn á bráðamóttöku leiddi í ljós að hann hafði sloppið ótrúlega vel frá bílveltunni, að sögn lögreglunnar.

Um þrjú í nótt var tilkynnt um ölvað par á hringtorgi í Mosfellsbæ. Þegar lögregla kom á staðinn viðurkenndu þau bæði að hafa ekið ölvuð og eru þau vistuð í fangageymslum lögreglu.

Lögreglan stöðvaði ökumann í Breiðholti um hálftvö í nótt sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna. Á lögreglustöð sýndi fíkniefnapróf jákvæða svörun við þremur tegundum fíkniefna. Ökumaður látinn laus að lokinni sýnatöku.

Upp úr fjögur í nótt stöðvaði lögreglan síðan annan ökumann í Breiðholti vegna þess að bifreið hans var á nagladekkjum. Strax vaknaði grunur um að maðurinn væri undir áhrifum fíkniefna og var ökumaðurinn fluttur á næstu lögreglustöð. Hann var síðan látinn laus að lokinni sýnatöku.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögreglan ökumann í Kópavogi grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna en hann var síðan látinn laus að lokinni sýnatöku. Um eitt í nótt var síðan ölvaður ökumaður stöðvaður á Reykjanesbraut í Hafnarfirði og var hann einnig látinn laus að lokinni sýnatöku.

Á Akureyri stöðvaði lögreglan för ölvaðs ökumanns í nótt en að öðru leyti var nóttin róleg þar á bæ.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um skemmdarverk á strætóskýli um miðnætti. Lögregla ræddi við vitni á vettvangi og er ákveðinn maður grunaður um verknaðinn, að því er segir í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert