Páfagaukur eyðir nóttinni hjá lögreglu

Fuglinn flaug að heiman frá Húsvík í dag og erlendir …
Fuglinn flaug að heiman frá Húsvík í dag og erlendir ferðamenn fóru með hann á lögreglustöðina á Akureyri. Eigandinn mun vitja hans á morgun. Ljósmynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra

Hópur erlendra ferðamanna sem voru staddir við höfnina á Húsavík í dag ráku upp stór augu þegar páfagaukur kom fljúgandi að þeim og tyllti sér á öxlina á einum ferðamanninum. 

Hópurinn ákvað að reyna að koma fuglinum til síns heima og fóru með hann á lögreglustöðina á Akureyri. Lögreglan á Norðurlandi eystra sagði frá fundinum á Facebook-síðu sinni þar sem auglýst var eftir eigandanum. 

Ferðamennirnir höfðu sérhannað búr fyrir fuglinn úr pappakassa með sérsmíðuðum útsýnispalli úr plastglasi. Lögreglufulltrúi á vakt segir í samtali við mbl.is að um afar snotra hönnun sé að ræða. Fuglinn sé hins vegar kominn í stærra búr þar sem hann mun eyða nóttinni á lögreglustöðinni. Eigandinn hefur gefið sig fram, en hann er búsettur á Húsavík og mun sækja fuglinn á morgun. 

Kvöldið hefur annars verið rólegt hjá lögreglunni á Akureyri og lögreglumenn á vakt hafa því getað gefið sér tíma og útvegað mat og aðrar nauðsynjar fyrir páfagaukinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert