Samfylkingin fordæmir aðskilnað fjölskyldna

Á rúm­lega sex vik­um hafa um tvö þúsund börn þannig …
Á rúm­lega sex vik­um hafa um tvö þúsund börn þannig verið aðskil­in frá for­eldr­um sín­um á landa­mær­un­um og komið fyr­ir í sér­stök­um ​mót­tökumiðstöðvum á veg­um stjórn­valda. AFP

„Það á ekki að líðast að börn séu notuð sem skiptimynt í pólitískum deilum.“ Þetta kemur meðal annars fram í yfirlýsingu sem þingflokkur og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar hefur sent frá sér vegna framferði Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn og foreldra við landamæri Bandaríkjanna til suðurs.

Banda­ríkja­stjórn hefur sætt harðri gagn­rýni vegna harðra mót­taka á þeim sem koma yfir landa­mær­in frá Mexí­kó í leit að hæli. Börn eru tek­in af for­eldr­um sín­um sem sett­ir eru í fang­elsi, en börn­in eru geymd í búðum og jafn­vel inni í eins kon­ar búr­um dög­um, vik­um og jafn­vel mánuðum sam­an.

Í yfirlýsingu Samfylkingarinnar er þess krafist að íslensk stjórnvöld bregðist tafarlaust við „þessum brotum á réttindum barna og flóttafólks.“

„Samfylkingin krefst þess að íslensk stjórnvöld sendi frá sér harðorða opinbera yfirlýsingu vegna málsins og beiti sér á alþjóðlegum vettvangi, t.a.m. í NATÓ þar sem einna mest samskipti við Bandaríkin eiga sér stað,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur einnig fram að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir fundi í Utanríkismálanefnd Alþingis vegna málsins, sem verður nú á mánudag. Á fundinum mun hann bera uppi tillögur þess efnis ef ríkisstjórnin bregst ekki við með afgerandi hætti í millitíðinni.

Yfirlýsing þingflokks og framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar má lesa í heild sinni hér að neðan:

Samfylkingin fordæmir harðlega það framferði Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn og foreldra við landamæri Bandaríkjanna til suðurs og krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist tafarlaust við þessum brotum á réttindum barna og flóttafólks.

Það á ekki að líðast að börn séu notuð sem skiptimynt í pólitískum deilum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið er ekki nóg með að brotið sé á umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum Bandaríkjanna með því að hneppa þá í varðhald - heldur eru börn þeirra einnig tekin af þeim og jafnvel komið fyrir í ómannúðlegum geymslum án umönnunar til lengri tíma.

Allt að 2700 fjölskyldur hafa þegar verið aðskildar með þessum hætti.

Samfylkingin krefst þess að íslensk stjórnvöld sendi frá sér harðorða opinbera yfirlýsingu vegna málsins og beiti sér á alþjóðlegum vettvangi, t.a.m. í NATÓ þar sem einna mest samskipti við Bandaríkin eiga sér stað. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur þegar beðið um fund í Utanríkismálanefnd Alþingis vegna málsins, sem verður nú á mánudag, og mun þar bera uppi tillögur þess efnis ef ríkisstjórnin bregst ekki við með afgerandi hætti í millitíðinni.

Samfylkingin lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af þeirri vegferð sem Bandaríkjaforseti fetar á alþjóðavettvangi. Bandaríkin hafa að undanförnu sagt sig úr Parísarsáttmálanum, Íran-samkomulaginu og nú síðast Mannréttindaráði SÞ. Bandaríkin eru þar að auki eina ríki Sameinuðu Þjóðanna sem hefur ekki fullgilt Barnasáttmálann.

Ísland á að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum og mannúðlegri móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við eigum að vera staðfastir talsmenn verndar barna á flótta og taka afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi,útlendingahatri og mismunun, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert