Segir starfsfólki Hvals meinað að vera í VLFA

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA), segir að starfsfólki Hvals hf. hafi verið meinað að vera í félaginu á fundi með forsvarsmönnum Hvals hf. í morgun. Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni en hvalveiðar hófust að nýju í dag.

„Þegar starfsmenn komu til fundar með forsvarsmönnum Hvals í morgun þá var þeim tilkynnt að enginn mætti vera í Verkalýðsfélagi Akraness heldur yrðu allir að vera í Stéttarfélagi Vesturlands þrátt fyrir að starfsstöð Hvals í Hvalfirði sé á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness,“ skrifar Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir að með þessu sé verið að „reyna að refsa Verkalýðsfélagi Akraness með því að meina starfsmönnum að vera í VLFA vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness uppfyllti sínar lagalegu skyldur við að tryggja og varðveita réttindi sinna félagsmanna.“

Þá vísar Vilhjálmur í dóm Hæstaréttar frá 14. júní þar sem VLFA höfðaði mál fyrir hönd starfsmanns Hvals hf. gegn fyrirtækinu sem var dæmt til að greiða manninum rúma hálfa milljón króna vegna brota á kjarasamningi. VLFA taldi niðurstöðu Hæstaréttar gríðarlega fordæmisgefandi. Fjallað var um dóminn á vef Rúv.

Vilhjálmur segir aðgerðir Hvals hf., það er að meina starfsmönnum fyrirtækisins að vera í VLFA, vera andstæðar öllum leikreglum á hinum almenna vinnumarkaði.

„Þessu grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals mun Verkalýðsfélag Akraness mæta af fullri hörku því þessi aðgerð er siðlaus og lítilmannleg sem er fólgin í að stilla starfsmönnum upp með þeim hætti að ef þeir hafna ekki að vera í Verkalýðsfélagi Akraness munu starfsmenn jafnvel ekki fá starfið,“ skrifar Vilhjálmur.

Færsla Vilhjálms í heild sinni: 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert