Hlýtt á Norðausturlandi

Veðrið virðist einna best á norðausturhluta landsins í dag.
Veðrið virðist einna best á norðausturhluta landsins í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Veðurstofan varar við varasömum aðstæðum á norðanverðu Snæfellsnesi og Vestfjörðum vegna vindhviða í dag og kvöld. Spáð er rigningu á Suður- og Vesturlandi en hlýju og þurru á Norðausturlandi.

Athugasemd veðurfræðings: Varasamt fyrir létt farartæki og tengivagna sem taka á sig vind. Í dag má búast við vindi yfir 15 m/s með snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi. Einnig á Vestfjarðakjálkanum, einkum í kvöld og fram eftir morgundegi.

„Suðlægar áttir ríkjandi fram yfir helgi. Vætusamt sunnan og vestan til á landinu en með uppstyttum á meðan norðaustanvert landið verður að mestu laust við vætu. Þar verður einnig mun hlýrra og hiti gæti farið yfir 20 stig, einkum þó austanlands, en lengst af 7 til 12 stig í vætunni sunnan og vestan til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi sunnanátt, 8-15 og rigning um landið vestanvert í dag og snarpar vindhviður á norðanverðu Snæfellsnesi. Heldur hægari suðvestanátt og lengst af þurrt austan til.
Dregur úr vindi og úrkomu á morgun, víða þurrt síðdegis og suðlæg átt, 5-13, annað kvöld, hvassast NV-til á landinu. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á föstudag:

Suðvestan 5-13 m/s. Bjart veður NA- og A-lands, annars skýjað og súld eða rigning framan af degi. Hiti 7 til 12 stig en allt að 20 á Austurlandi. 

Á laugardag:
Suðlæg átt, 5-13, og fer að rigna, fyrst SV-til, en þurrt NA-lands fram á kvöld. Hiti 8 til 12 stig, en 12 til 18 um landið NA-vert. 

Á sunnudag:
Suðvestanátt, 3-10, og dálítil súld með köflum, en þurrt á N- og A-landi. Víða rigning um kvöldið. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag:
Vestlæg átt, 5-13, með rigningu um nær allt land, síst á Norðausturlandi. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast austast. 

Á þriðjudag:
Suðvestanátt og skúrir vestan til  á landinu en bjartviðri austanlands. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast austanlands. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir austanátt með rigningu um mestallt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert