Ómannúðleg framkvæmd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

„Þessi framkvæmd sem hefur verið við landamæraeftirlit í Bandaríkjunum að undanförnu, þar sem börn eru skilin frá foreldrum sínum, er ómannúðleg og samræmist ekki þeim gildum sem við aðhyllumst,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra spurður um aðskilnað barna og foreldra á landamærum Bandaríkjanna undanfarnar vikur.

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í gær tilskipun sem á að binda enda á aðskilnað barna ólöglegra innflytjenda frá foreldrum sínum. Um 2.000 börn hafa verið skilin frá foreldrum sínum við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna síðustu sex vikur vegna stefnubreytingar hjá ríkisstjórn Trumps. Þessi meðferð á börnum hefur vakið hörð viðbrögð um allan heim.

„Réttindi barna og velferð skulu ávallt höfð í fyrirrúmi. Það er krafa sem er í gildi stjórnvalda allra ríkja, ekki síst réttarríkja sem byggjast á þessum grunngildum sem við aðhyllumst; lýðræði, frelsi og mannréttindum.“

Guðlaugur er nýkominn af fundi í Svíþjóð með öðrum utanríkisráðherrum þar sem þeir ræddu þetta óformlega og sagði hann menn hafa áhyggjur af þessu. „Við eigum í reglulegum samræðum við bandarísk stjórnvöld og munum taka málið upp á þeim vettvangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert