Súrsætur áfangasigur hjá Sigmari

Sigmar ætlar að fagna staðfestingu dómsins með rauðvíni.
Sigmar ætlar að fagna staðfestingu dómsins með rauðvíni. mbl.is/Arnþór

„Í sjálfu sér er þetta ekkert sem kemur á óvart. Þetta er súrsæt tilfinning,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, en Héraðsdómur Reykjavíkur varð að kröfu hans í dag og dæmdi ákvörðun Stemmu hf. um sölu tveggja lóða á Hvolsvelli til Fox ehf. ógilda.

„Það er leiðinlegt að hafa þurft að draga fyrrverandi viðskiptafélaga og fyrrverandi vin sinn fyrir dómstóla sem hefði auðveldlega verið hægt að leysa fyrir þremur árum,“ segir Sigmar og vísar þar til Skúla Gunnars Sigfússonar sem oft er kenndur við Subway. Deilur komu upp á milli Sigmars og Skúla í kjölfar þess að þeir ætluðu að framkvæma hugmynd um ferðaþjónustu við Hvolsvöll, þar sem Lava-setrið er í dag.

Sig­mar var ósátt­ur við að til­boði Íslands­hót­ela í lóðirn­ar upp á 50 millj­ón­ir króna hefði verið hafnað. Í stað þess var til­boði frá Fox ehf. og Þingvangi í aðra lóðina og kauprétt á hinni samþykkt. Til­boðið hljóðaði upp á 25 millj­ón­ir og 15 millj­ón­ir voru í kauprétt á hót­ellóð.

Samkvæmt dómnum var sala lóðanna ótilhlýðileg og ólögmæt. Það þýðir, að sögn Sigmars, að allir þeir sem að henni komu séu skaðabótaskyldir. „Þetta er ekkert skemmtilegt en ég er auðvitað ánægður með að fá það staðfest af dómstólum sem ég taldi mig vita allan tímann.“

Sigmar gerir ráð fyrir því að úrskurði héraðsdóms verði áfrýjað miðað við það sem á undan er gengið í málinu. „Ef ég þekki gagnaðila málsins þá verður þessu áfrýjað eins langt og hægt er. Annað kæmi mér á óvart. Stíllinn í þessu máli öllu hefur verið að flækja, draga, lengja og auka kostnað á mig.“

Hann segir þetta þó vera ákveðinn áfangasigur. „Það var mitt markmið að fá þetta staðfest og það náðist í dag. Það er tilefni til þess að opna eina góða rauðvínsflösku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert