Ein lægð á dag

Frábært veður fram undan í dag á Egilsstöðum.
Frábært veður fram undan í dag á Egilsstöðum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Áfram gera spár ráð fyrir að suðlægar áttir með vætu verði áberandi sunnan og vestan til á landinu á næstunni, svo mjög að næstum er hægt að tala um eina lægð á dag!“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á meðan gleðjast íbúar norðaustan- og austanlands en þar um slóðir er ekki útlit fyrir mikla úrkomu hins vegar, þótt af og til megi verða vart við dropa.

„Þar verða hitatölur almennt mun hærri en annars staðar á landinu og má segja að þeirra hitaskali byrji þar sem hann endar annars. Því megi búast við hita á bilinu 7 til 12 stig víðast hvar en 12 til 22 stiga hita um landið NA-vert. Á köflum getur hafgolan skemmt þessa veislu hjá þeim og einnig getur dægursveiflan orðið ansi mikil enda kólnar talsvert á nóttinni þar sem léttskýjað verður,“ segir enn fremur í hugleiðingum veðurfræðings.

Athugasemd veðurfræðings: Varasamt fyrir létt farartæki og tengivagna sem taka á sig vind. Búast má við vindi 13-18 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll norðvestanlands fram eftir degi.

Veðrið næstu daga

Suðvestan 5-13 en allt að 18 norðvestan til. Súld á köflum S- og V-til, en annars þurrt. Víða þurrt síðdegis og dregur úr vindi NV-til á landinu. Hægari í nótt.
Suðaustan 5-13 og rigning á morgun, en úrkomulítið um landið NA-vert. Úrkomuminna undir kvöld, fyrst SV-lands. Hiti 8 til 22 stig, hlýjast á Austurlandi, en heldur svalara A-til á morgun.

Á laugardag:

Suðlæg átt, 5-13, og fer að rigna, fyrst SV-til, en þurrt NA-lands fram á kvöld. Hiti 8 til 12 stig, en 12 til 18 um landið NA-vert. 

Á sunnudag:
Suðlæg átt, 3-10, og dálítil súld með köflum, en þurrt á N- og A-landi. Hvessir síðdegis og rigning S- og V-lands. Hiti svipaður. 

Á mánudag:
Suðvestan 5-13 og rigning um S- og V-vert landið, en lengst af þurrt annars staðar. Hvassari á köflum. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á NA-horninu. 

Á þriðjudag:
Suðvestanátt og skúrir vestan til á landinu en bjartviðri austanlands. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast austanlands. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir að lægð gangi yfir landið með rigningu, einkum S- og V-lands. Hiti víða 8 til 15 stig. 

Á fimmtudag:
Líkur á áframhaldandi suðlægari átt með vætu en þurrt um landið austanvert og mjög hlýtt þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert