Ölvaður og með dólgslæti í Laugardalnum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nokkur fíkniefnamál komu upp í Laugardalnum í gær og í nótt en Secret Solstice-tónlistarhátíðin var sett í dalnum síðdegis í gær. Meðal annars voru tveir ölvaðir menn handteknir sem voru með dólgslæti og fóru ekki að fyrirmælum lögreglu.

Tilkynnt var til lögreglunnar á öðrum tímanum í nótt um mann í Laugardalnum sem hafði slasast á fæti við að klifra yfir girðingu. Er lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn ölvaður og með dólgshátt við lögreglu. Vinur mannsins, sem einnig var ölvaður, fór ekki að fyrirmælum lögreglu og endaði með því að þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöð þar sem þeim var síðan sleppt eftir viðræður.

Síðdegis í gær var maður handtekinn í Laugardal grunaður um vörslu og sölu á fíkniefnum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls og sleppt að lokinni skýrslutöku.

Þrjú fíkniefnamál komu upp í Laugardalnum á rúmum tveimur tímum í nótt. Einn mannanna sem lögreglan hafði afskipti af var með THC-olíu í rafrettu (vape) en tetrahýdrókannabínól (THC) er vímuefnið í kannabis. 

Um kvöldmatarleytið var síðan maður í annarlegu ástandi handtekinn í Gnoðarvogi og er hann vistaður í fangageymslum lögreglunnar vegna ástands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert