Sjálfstæðismenn una niðurstöðunni

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. Ófeigur Lýðsson

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum mun ekki áfrýja úrskurði kjörnefndar, sem tók fyrir kæru flokksins, til dómsmálaráðuneytisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Flokkurinn kærði talningu bæjarstjórnarkosninganna í síðasta mánuði en einungis vantaði fimm atkvæði upp á að flokkurinn næði sínum fjórða bæjarfulltrúa og héldi meirihluta í bænum. Þess í stað fékk flokkurinn þrjá fulltrúa, líkt og H-listi Fyrir Heimaey en Eyjalistinn fékk einn. Úr varð að Fyrir Heimaey og Eyjalistinn mynduðu meirihluta.

Kær­an sneri ann­ars veg­ar að fjór­um utan­kjör­fund­ar­at­kvæðum sem bár­ust kjör­stjórn of seint og voru því ekki tal­in gild, og hins veg­ar að einu at­kvæði greiddu H-lista, sem Sjálf­stæðis­menn vildu dæmt ógilt þar sem kjós­andi deildi mynd af því á sam­fé­lags­miðlum.

Þriggja manna kjörnefnd hæstaréttarlögmanna tók kæruna fyrir og staðfesti hún niðurstöðu talningar.

Í tilkynningu frá flokknum segir að bagalegt sé að vilji kjósandans nái ekki fram að ganga og ljóst að eðlilegt hafi verið að láta reyna á rétt hans til að ná sínu fram. Það sé landsbyggðarmál að laga þann hluta kosningalöggjafarinnar sem snýr að utankjörfundaratkvæðagreiðslu að nútímanum á þann veg að kjósandinn þurfi ekki sjálfur að koma atkvæðum sínum landshlutanna á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert