Dæmt til að greiða 58 milljónir vegna kaupa á DV

Þrotabú Pressunnar krafðist frávísunar en þeirri kröfu var vísað frá
Þrotabú Pressunnar krafðist frávísunar en þeirri kröfu var vísað frá mbl.is/Sverrir

Þrotabú Pressunnar hefur verið dæmt til að greiða Útverði tæpar 58 milljónir króna vegna kaupa á DV ehf. fyrir fjórum árum. Útvörður ehf. og aðrir seljendur DV veittu Pressunni lán fyrir kaupum á félaginu en tókst ekki að fá skuldina greidda þrátt fyrir tilraunir til innheimtu. Síðar framseldu aðrir lánveitendur allar kröfur sínar til Útvarðar.

Til tryggingar greiðslu lánsins veitti Pressan lánveitendum handveð í hlutafé DV. Stefnandi lýsti því fyrir héraðsdómi Reykjavíkur að hann hafi í ljósi vanefnda Pressunnar, til að endurgreiða lánið, tekið hina veðsettu hluti í DV til sín og selt þá. Söluverð þeirra hafi numið 5 milljónum króna í mars á seinasta ári. Verjandi þrotabúsins hafnaði þeim málflutningi.

Þrotabú Pressunnar krafðist frávísunar en þeirri kröfu var vísað frá með úrskurði í nóvember á seinasta ári. Bent var á að hvorki hafi umræddur lánssamningur né handveðsyfirlýsing verið undirrituð af hálfu DV ehf. Þá hafi stjórn félagsins ekki samþykkt veðsetninguna.

Þrotabúið krafðist þess einnig að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega og vísaði til þess að komið hafi í ljós að staða DV hafi verið mun verri og alvarlegri en seljendur hafi gefið til kynna og að verulega fjármuni hafi þurft að leggja til rekstursins til að halda félaginu gangandi. Endurskoðandi hafi komist að þeirri niðurstöðu að Pressan ætti kröfu til leiðréttingar á kaupverði DV að fjárhæð rúmlega 30 milljóna króna.

Héraðsdómur útilokaði ekki að Pressan ætti mögulega gagnkröfur á hendur seljendum en taldi ekki hægt að leggja efnislegt mat á þær miðað við málflutning þrotabúsins. Þrotabúinu var einnig gert að greiða málskostnað, alls 1,5 milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert