Hugsuðu til hákarla á leiðinni frá Alcatraz

Krístin Steinunnardóttir, Lilja Magnúsdóttir og Einar B. Árnason ánægð að …
Krístin Steinunnardóttir, Lilja Magnúsdóttir og Einar B. Árnason ánægð að sundi loknu. Ljósmynd/Aðsend

Þau Lilja Magnúsdóttir, Einar B. Árnason og Kristín Steinunnardóttir tóku í dag þátt í sundi frá fangelsiseyjunni Alcatraz og að landi í San Fransisco í Bandaríkjunum. Öll luku þau við sundið og fóru um 2,4 kílómetra í fjórtán gráðu heitum sjó á um það bil klukkustund.

Lilja segir í samtali við mbl.is að Einar hafi átt hugmyndina að þátttöku í sundinu, en hann og Kristín eru búsett á Íslandi. Lilja býr hins vegar í nágrenni San Fransisco og hún segir að sundið hafi gengið vel hjá hópnum, sem hefur verið við æfingar í köldum sjónum undanfarna daga.

„Við skráðum okkur í sundið 10. maí og höfum verið að synda um tvisvar sinnum í viku síðan þá og höfum farið á nokkrar sjósundsæfingar hérna í San Francisco-flóanum,“ segir Lilja, sem kláraði sundið á innan við klukkustund og er afar sátt með það.

Alls tóku 228 manns þátt í sundinu, sem var í ár haldið í 38. skipti. Straumar í flóanum geta gert sundfólki erfitt fyrir og Lilja segir að einhverjum þátttakendum hafi ekki tekist að ná landi hjálparlaust.

„Það voru einhverjir sem fóru í sjúkrabíl og þurftu á hjálp að halda,“ segir Lilja, en sem betur fer lenti íslenska teymið ekki í vandræðum. Íslendingar hafa áður spreytt sig í þessu sundi en Lilja segir að eftir því sem þau komist næst séu hún og Kristín fyrstu íslensku konurnar til þess að taka þátt í sundinu.

Sést hefur til hákarla á þessu svæði en Lilja segir að blessunarlega hafi þau ekki rekist á neina slíka í dag. Hákarlarnir haldi sig enda alla jafna nær Golden Gate-brúnni, í dýpri og saltari sjó.

„Maður hugsaði til þeirra á leiðinni,“ segir Lilja og hlær, sátt með daginn.

Uppfært: Sú ábending barst að íslensk kona hefði áður þreytt þetta sund. Það mun Ólöf Pétursdóttir hafa gert árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert