Sendiráð tókust á í Hljómskálagarðinum

Håkan Juholt sendiherra Svía og Herbert Beck sendiherra Þjóðverja glaðbeittir …
Håkan Juholt sendiherra Svía og Herbert Beck sendiherra Þjóðverja glaðbeittir í Hljómskálagarðinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Fótbolti er vinátta,“ segir Håkan Juholt sendiherra Svía hér á landi í samtali við mbl.is. Sendiráð Svíþjóðar og Þýskalands mættust í knattspyrnuleik í Hljómskálagarðinum í dag í tilefni af því að þjóðirnar takast á í heimsmeistarakeppninni í Rússlandi í kvöld.

Leikurinn í Hljómskálagarðinum fór 7-2 fyrir Svía, en Håkan segir úrslitin algjört aukaatriði. Hann segir fótboltann kjörinn vettvang til þess að mynda ný vináttubönd og segir leikinn hafa verið spilaðan í anda gleði, ástar og vináttu. Sjálfur spilaði hann hluta leiks í marki sænska liðsins og segist ekki viss um að komast fram úr rúminu á morgun sökum þess.

Fjölskyldur starfsmanna sendiráðanna gerðu sér glaðan dag og grilluðu saman í Hljómskálagarðinum í dag og síðan standa sendiráðin fyrir hittingi á Ingólfstorgi núna síðdegis þar sem leikur Svía og Þjóðverja er sýndur.

Sendiráðin fengu Atla Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands, til þess að gefa sitt álit á leiknum og fara yfir málin, en hann spilaði lengi sem atvinnumaður í Þýskalandi auk þess sem hann hefur þjálfað í Svíþjóð.

Varðandi stórleik kvöldsins segir Håkan alla pressuna vera á Þýskalandi.

„Þeir þurfa að skora snemma í leiknum, annars er hætta á að taugarnar muni trufla þá í síðari hluta leiksins,“ segir sendiherrann, en Þjóðverjar töpuðu fyrir Mexíkó í fyrstu umferð keppninnar, á meðan að Svíar unnu góðan sigur á Suður-Kóreu.

„Svíþjóð er með þrjú stig og getur spilað án pressu,“ segir Håkan Juholt, sem vildi þó ekki spá fyrir um lokatölur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert